Skriður og krapaflóð í leysingum um helgina

Talsvert var um litlar skriður og krapaflóð í hlýindum og leysingum um helgina. Spáð er roki og jafnvel ofsaveðri í nótt.

Mikil leysing var í hlýindum og rigningu á Austfjörðum um helgina. Í yfirliti frá Veðurstofu Íslands segir að krapaflóð hafi fallið víða, í Fljótsdal, Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Reyðarfirði.

Segja má að á Fagradal og í Reyðarfirði séu ummerki um að spýjur hafi komið niður flesta lækjarfarvegi.

Þá féll stórt krapaflóð niður í þorpið í Mjóafirði seinni partinn á laugardag.

Veðurstofan hefur sent frá sér viðvörun fyrir kvöldið. Spáð er suðvestanroki, jafnvel ofsaveðri seint í nótt og frameftir morgni. Ekkert ferðaveður verður á svæðinu og er íbúum ráðlagt að tryggja lausamuni utandyra til að forðast foktjón.

Hjá ofanflóðadeild fengust þær upplýsingar að enn væri talin hætta á skriðuföllum. Nálgast má nýjar upplýsingar frá deildinni að loknum stöðufundi sem hefst klukkan tvö.

Flóð hefur farið niður úr Áreyjatindi ofan í Fagradalsá á laugardag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar