Skiptir máli að koma í veg fyrir frekara tjón

Hreinsunarstarf hófst á Seyðisfirði í dag eftir aurskriður sem féllu niður í bæinn í gær. Von er á fulltrúum Náttúruhamfaratryggingar Íslands á svæðið í lok vikunnar.

„Það var farið af stað í morgun að hreinsa göturnar. Það skiptir máli að beina vatninu annað og koma þannig í veg fyrir frekara tjón. Næsta skref er svo að vera til staðar fyrir íbúana, til dæmis varðandi tryggingamál,“ segir Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Gauti og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, skoðuðu verksummerki á Seyðisfirði um hádegi í dag. „Við höfum verið í samskiptum við Náttúruhamfaratryggingar og eigum von á fulltrúa þeirra austur í lok vikunnar til að fara yfir stöðuna. Íbúar eru í raun tryggðir þar fyrir hamförum sem þessum og það skiptir máli að þeir haldi utan um skemmdir sem hafa orðið á eignum vegna skriðanna,“ segir Björn.

Gauti segir engar tölur enn um það tjón sem hafi orðið. „Það dylst þó engum að það hljóta að vera töluverðar vatnsskemmdir í nokkrum húsum.“

Fólk boðið fram aðstoð við hreinsunina

Björn segir að á vegum Múlaþings og almannavarna hafi verið reynt að tryggja upplýsingaflæði til íbúa. Hættustig er í gildi í bænum en um 120 manns þurftu að yfirgefa heimili sín í gær. Fjöldahjálparstöð er opin í félagsheimilinu Herðubreið og verður það áfram.

„Mér finnst standa upp úr hvað viðbragðsaðilar virkuðu vel, hve fljótt rýmingin gekk fyrir sig og hvað fólk stendur saman þegar á móti blæs. Það er fólk sem bauð gistingu í gær og gaf kost á sér í hreinsunarstarf í dag,“ segir Gauti.

Áhersla á að hreinsa eins mikið og hægt er

Fulltrúar á vegum HEF, sem sér um veitumál sveitarfélagsins, hafa skoðað stöðuna í dag. Björn segir mörgum spurningum enn ósvarað en ljóst sé að mikil vinna sé framundan. „Það hefur verið lögð áhersla á að hreinsa eins mikið og hægt er þótt sum svæði sé enn lokuð.“

Hann sat fund almannavarnanefndar seinni partinn í dag þar sem farið var yfir stöðuna. Botnasvæðið, þar sem skriðurnar áttu upptök sín, var myndað með flygildi í dag. Björn segir niðurstöður þeirrar skoðunar ekki liggja fyrir og því sé erfitt að segja til um líkurnar á frekari skriðuföllum. Stærsta vandamálið sé áframhaldandi úrkomuspá og verður rýming áfram í gildi í nótt.

Ótrúlegt að sjá

Gauti segir það hafa verið furðulegt að skoða ummerkin á Seyðisfirði í dag. „Mér fannst þetta mjög ótrúlegt. Þegar ég fór að skoða staðhætti með heimamönnum blöstu við mér í hlíðinni sár eftir eldri skriðuföll og þá áttaði ég mig á að þetta er nokkuð sem Seyðfirðingar hafa búið við lengur en ég gerði mér grein fyrir.

Við vonum að þessu veðurástandi linni þannig að fólk komist heim til sín. Það er ömurlegt að lenda í þessu í aðdraganda hátíðarinnar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.