Skipa starfshóp um húsnæðismál Fellaskóla

Fjölskylduráð Múlaþings hefur skipað starfshóp um húsnæðismál Fellaskóla. Honum er ætlað að meta hvaða kostir eru í stöðunni á næstu árum þar til hægt verði að byggja við skólann. Kennarar segjast hafa sýnt langlundargeð varðandi ýmsa aðstöðu.

Ákveðið var að skipa starfshópinn á fundi sveitarstjórnar Múlaþings í síðasta mánuði. Var það niðurstaðan eftir umræður og deilur um möguleika í húsnæðismálum skóla á Egilsstöðum og í Fellabæ.

Nýr leikskóli var opnaður í Fellabæ haustið 2022. Um leið losnaði um eldra húsnæði leikskólans Hádegishöfða. Þangað flutti Fellaskóli með list- og verkgreinar.

Aftur leikskóli í gamla Hádegishöfða?


Síðustu mánuði hefur verið til skoðunar hvernig eigi að bregðast við mögulegri fjölgun leikskólabarna í þéttbýlinu við Lagarfljót. Á fundi fjölskylduráðs í janúar var samþykkt að opna gamla Hádegishöfða aftur sem leikskóla, að hluta eða í heild, ef á þyrfti að halda. Þangað til væri Fellaskóla heimilt að nýta skólann.

Það var meirihlutinn sem stóð að ákvörðuninni. Minnihlutinn vildi að Fellaskóla fengi gamla Hádegishöfða, að minnsta kosti út næsta skólaár, enda væri ekki fyrirséð slík fjölgun að strax þyrfti að ráðstafa húsinu annað. Sú tillaga var felld. Þá bókaði minnihlutinn að niðurstaðan væri keyrð í gegn í flýti í trássi við fagfólk þannig að útkoman yrðu frekari vandamál. Með að henda grunnskólanum út úr gamla leikskólanum væru vandamálin aðeins færð til. Meirihlutinn benti á móti að húsnæði yrði að vera klárt til að standa við loforð um að öll börn, 12 mánaða og eldri, fái leikskólapláss.

Starfsfólk Fellaskóla langþreytt á þrengslum


Í kjölfarið sendi starfsfólk Fellaskóla erindi til Múlaþings þar sem ákvörðun fjölskylduráðs var mótmælt. Þar segir að þrengt hafi að öllu skólastarfinu vegna breyttra staðla um það. Þess vegna hafi tækifærið verið gripið til að færa list- og verkgreinarnar í gamla Hádegishöfða. Það hafi kostað mikla vinnu, þurft hafi að færa til vélar og efni auk þess sem húsnæðið uppfyllti ekki kröfur til smíðakennslu eða heimilisfræði.

Kennararnir telja að það myndi þýða verulega röskun fyrir skólastarfið að missa gamla Hádegishöfða. Þeir segja Fellaskóla hafa búið lengi við þrengsli og aðstöðuleysi. Rými fyrir nemendur séu of fá, vinnuaðstaða kennara lítil sem engin, pláss vanti fyrir funda og viðtöl, aðstaða fyrir utanaðkomandi sérfræðinga sé ekki til eða afdrep fyrir nemendur í vanda. Samstarf við tónskólann, sem er líka í húsinu, hafi verið gott og vilji til að halda því áfram þótt það þrengi óneitanlega að báðum skólum.

Starfsfólkið hafa sýnt langlundargeð og þeir hafi lagt á sig „ómælda vinnu til að gera gott úr stöðunni hverju sinni.“ Nú sé hin vegar „mikið meira en nóg komið.“ Skorað er á meirihlutann að taka ákvörðun sína til baka því skólastarf þurfi stöðugleika en ekki pólitískan hringlandahátt. Bent er á að bygging ofan á nýrri hluta skólans hafi stöðugt verið færð aftar í forgangsröðunina. Þá er skorað á sveitarstjórn að vinna að því að tryggja varanlega lausn á aðstöðu list- og verkgreina í Fellaskóla með samtali við stjórnendur og starfsfólk skólans.

Starfshópur um húsnæðismál Fellaskóla á að vinna hratt


Á síðasta fundi sveitarstjórnar var, með vísan í erindið, ákveðið að fjölskylduráð skipaði starfshóp sem greini þá valkosti sem séu til að leysa húsnæðismál Fellaskóla þar til hann verði stækkaður. Það er á framkvæmdaáætlun Múlaþings árin 2030-32. Tillagan var samþykkt með atkvæðum meirihlutans, fulltrúar Austurlista og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sat hjá en fulltrúi Miðflokksins var á móti.

Áður hafði tillaga minnihlutans um að skipa starfshóp sem greindi bæði húsnæðismál Fellaskóla og leikskóla á Fljótsdalshéraði verið felld. Fulltrúar minnihlutans bókuðu í framhaldi gagnrýni á vinnubrögð meirihlutans sem þeir lýstu sem gerræðislegum sem hefði leitt til illa rökstuddrar ákvörðunar. Þeir vildu þó vinna áfram að lausn málsins.

Hópurinn var skipaður á fundi fjölskylduráðs fyrir viku. Björg Eyþórsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokks í fjölskylduráði, verður formaður ráðsins en Jóhann Hjalti Þorsteinsson, fulltrúi Austurlistans, í ráðinu situr í hópnum fyrir minnihlutann. Þórhalla Þráinsdóttir verður fulltrúi starfsfólks. Fræðslustjóri, framkvæmda- og umhverfismálastjóri, skólastjóri Fellaskóla og skólastjóri Tónlistaskólans í Fellabæ starfa með starfshópnum. Honum er einnig ætlað að ræða við fulltrúa ungmennaráðs, nemenda skólans og foreldra.

Hópurinn á að skila af sér niðurstöðum fyrir lok þessa mánaðar og á þeim að fylgja kostnaðarmat. Þær ganga síðan til annars vegar fjölskylduráðs, hins vegar umhverfis- og framkvæmdaráðs.




 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.