Sjá fyrir endann á töfum við byggingu nýja leikskólans í Fellabæ

„Við hefðum náð að klára þetta mun fyrr ef ekki hefðu komið til miklar tafir á hurðunum sem í húsið fara en við vorum bara að fá þær til okkar núna eftir langa bið,“ segir Tómas Bragi Friðjónsson, sem stýrir framkvæmdum við nýjan glæsilegan leikskóla í Fellabæ.

Nokkrar tafir hafa orðið á að ljúka framkvæmdum og opna skólann en það stóð upphaflega til í ágústmánuði. Því var frestað til 20. september en nú er orðið ljóst að starfsemi þar hefst varla fyrr en miðjan næsta mánuð. Nú er gert ráð fyrir að verktakarnir sem að byggingunni standa skili af sér föstudaginn 7. október en hafa reyndar helgina eftir aukalega ef á þarf að halda. Einhverja daga til viðbótar tekur starfsfólk að koma sér fyrir og því minnst tvær vikur áður en hægt verður að opna skólann formlega.

Smiðir, píparar og rafiðnaðarmenn voru önnum kafnir þegar Austurfrétt leit við í dag en heilt yfir hefur bygging skólans gengið vel það ár sem hún hefur staðið yfir. Sjálfur er Tómas Bragi ekki í vafa um að þeir nái að ljúka verkinu á tíma nú þegar hurðirnar séu loks komnar.

„Það hafa verið miklar tafir vegna þeirra en þær eru sérframleiddar í Þýskalandi og vandamálið var hjá þeim en ekki okkur hér. Ég er ekki í vafa um að við náum á klára þetta á tíma úr þessu.“

Iðnaðarmenn hafa ekki slegið slöku við við byggingu nýja leikskólans undanfarið. Leiksvæði utandyra því sem næst tilbúið og innandyra verður nú hægt að fá alvöru gang í verkið því hurðirnar eru loks komnar frá Þýskalandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar