Skemma brann á bænum Freyshólum

Allt tiltækt slökkvilið á Egilsstöðum var kallað út í dag að bænum Freyshólum í útjaðri Hallormsstaðarskógar þar sem skemma stóð í ljósum logum. Ekki tókst að bjarga skemmunni en slökkviliðið kom í veg fyrir að eldurinn bærist í nærliggjandi einbýlishús.

Ingvar Birkir Einarsson varaslökkviliðsstjóri segir að útkallið hafi komið um hálf fjögurleytið í dag. "Þegar við komum á staðinn var skemman eiginlega orðin rústir einar en þetta hefur verið töluverður eldur sem mikinn reyk lagði frá," segir Ingvar Birkir. "Við komum í veg fyrir að eldurinn breiddist út í nærliggjandi einbýlishús og um klukkutíma eftir útkallið var slökkvistörfum að mestu lokið."

Slökkviliðið er þó enn á staðnum að drepa í síðustu glæðunum frá eldinum. Um tíma var hætta á að eldsvoðinn smitaðist yfir í sinubruna en slökkviliðið stoppaði það.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar