Skeljungur skiptir um umboðsaðila á Reyðarfirði: Segir samningi sagt upp í bræðikasti

Skeljungur hefur sagt upp samningum um rekstur stöðvar sinnar á Reyðarfirði. Rekstaraðilinn er ósáttur og segir fyrirtækið yfirfæra deilur frá Húsavík yfir á skálann á Reyðarfirði. Fyrirtækið hyggst leita að nýjum rekstraraðila fyrir skálann.


Í gær birtist færsla á Facebook-síðu Grillskálans Reyðarfirði þar sem Reyðfirðingum er þökkuð samfylgdin síðustu níu ár og þeim boðið til veislu miðvikudaginn 14. september því ekki sé útlit fyrir að hægt verði að halda upp á tíu ára afmælið.

Framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Skeljungs er nafngreindur í færslunni og sakaður um að ætla að fella reksturinn á Reyðarfirði út af deilum um skálann á Húsavík, sem rekinn er af sömu aðilum.

Þeir segjast „ekki ætla að láta kjöldraga sig á Húsavík og talið rétt að klár það sem Skeljungi hefur ekki tekist í áratugi“ sem mun vera að snúa við rekstri stöðvarinnar fyrir norðan.

Í samtali við Austurfrétt sagði Bjarni Rafn Ingvason, rekstarstjóri skálanna, að stjórnendur Skeljungs hafi viljað segja upp samningi við hann um skálann á Húsavík eftir eitt og hálft ár vegna rekstrartaps en samningurinn hafi verið til fimm ára.

Þegar hann hafi neitað að rifta samningnum hafi samningunum á Reyðarfirði verið sagt upp „í bræðikasti“ Hann sagði þó ekki útséð um framhald rekstursins þar.

Í færslunni á Facebook, sem undirrituð er af Bjarna, heldur hann því fram að aldrei hafi borist „aðfinnslur, áminningar eða neitt því um líkt“ vegna skálans á Reyðarfirði frá Skeljungi. „Ekki var okkur spáð neinni sælu hér á Reyðarfirði, en það hefur með mikilli vinnu, náð að borga alla reikninga og skulda ekkert.“

Í yfirlýsingu sem Skeljungur sendi Austurfrétt vegna fyrirspurnar um málið segir að fyrirtækið hafi „átt langt og farsælt samstarf við umræddan rekstraraðila en á þessum tímapunkti teljum við nauðsynlegt að nýr aðili taki við. Þökkum við honum fyrir vel unnin störf og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni.

Skeljungur hefur haldið úti rekstri bensínstöðvar á Reyðarfirði í áratugi og mun halda áfram að bjóða íbúum Reyðafjarðar og nágrennis upp á eldsneyti á hagstæðu verði og góða þjónustu. Skeljungur er á engan hátt að draga saman seglin og vonum við að heimamenn muni taka nýjum rekstraaðila vel.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar