Orkumálinn 2024

„Sjáum áhlaupið á Hraunasvæðið vera að hefjast“

Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) hafa skorað á sveitarstjórnir Djúpavogshrepps, Fljótsdalshrepps og Fljótsdalshéraðs að gjalda varhug við áformum um virkjanir í ám sem falla frá svonefndum Hraunum á sunnanverðu hálendi Austfjarða. Formaður samtakanna segir þörf á upplýstri og gagnrýninni umræðu. Smávirkjanir séu oft ekki smáar þegar betur er að gáð.


„Við óttumst um að þetta sé bara fyrsta skrefið í stærri áformum um sókn inn á þetta vatnasvið,“ segir Andrés Skúlason, formaður NAUST.

Á aðalfundi samtakanna var samþykkt áskorun þar sem varað er við rannsóknarleyfum á fjórum svæðum sem tengjast Hraununum. Í fyrsta lagi séu það Suðurá, Hofsá, Geithellnaá, Hamarsá, Fossá og Berufjarðará í Djúpavogshreppi, Fellsá með Sultarranaá og Strútsá í Fljótsdalshreppi, Gilsá á mörkum Fljótsdals og Fljótsdalshéraðs og Geitdalsá í Skriðdal.

Virkjun í Geitdalsá fyrsta skrefið

Andrés bendir á að í rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða sé í biðflokki að finna uppkast að 126 MW virkjun með miðlunarlónum á Hraunasvæðinu þaðan sem vatnið yrði leitt niður í Berufjörð. 

„Stærsti einstaki virkjunarkostur sem Orkustofnun hefur lagt fram á Austurlandi í kjölfar Kárahjúkavirkjunar er einmitt Hraunaveita ofan í Berufjörð en hún þykir um sinn of stórtæk og of tímafrekt ferli að ráðast í, að minnsta kosti að sinni.


Í stað þess þrýstir orkugeirinn á að fara aðrar leiðir til að ná markmiðum sínum með að ráðast í smærri virkjanir allt í kringum hraunin sem munu leiða til víðtækra náttúruspjalla. Þegar er búið að gefa út rannsóknarleyfi fyrir 30 – 70 MW virkjun í Hamarsdal, sem ekki einu sinni skilgreindur virkjunarkostur í rammaáætlun. Ég furða mig á hvernig Orkustofnun hefur staðið að leyfisútgáfum á færibandi, algjörlega athugasemdalaust eins og í því dæmi.

Áform um virkjun Geitdalsár af hraunum er hinsvegar komin lengra þar sem búið er að leggja fyrir skipulagslýsingu vegna áforma um breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs vegna fyrirhugaðrar virkjunar og stórtækra stíflumannvirkja meðal annars í svokölluðu Leirdalsvatni. Í næsta nágrenni við Leirdalsvatn á Hraunum eru meðal annars Ódáðavötn sem nýtt eru í dag sem uppistöðulón fyrir Grímsárvirkjun. Frá Ódáðavötnum í átt að suðurdal í Skriðdal er einnig búið að gefa út rannsóknarleyfi og þar á Orkusalan í hlut“ segir Andrés.

Andrés segir þá skipulagsbreytingar Fljótsdalshéraðs vegna Geitdalsvirkjunar hafa gefið tilefni til viðbragða af hálfu NAUST. „Það er verið að taka fyrstu skrefin í átt til þess að Geitdalsvirkjun geti orðið að veruleika. Við sjáum áhlaupið á Hraunasvæðið vera að hefjast.“

Rangt að tala um smávirkjanir

Svonefndar smávirkjanir geta verið allt að 9,9 MW að stærð og þar með undanþegnar mati á umhverfisáhrifum. Þær voru heldur ekki teknar til skoðunar í rammaáætluninni. Forsvarsmenn Arctic Hydro, sem vinur að virkjun Geitdalsár, hafa gefið það út að sú virkjun muni fara í mat. Andrés varar við að smávirkjanir séu oft stærri en þær sýnist og bendir á til samanburðar sé Grímsárvirkjun 2,8 MW. „Í okkar huga er verið að villa um með að kalla þetta smávirkjanir því þær eru það ekki.“

Hann varar einnig við því að rannsóknarleyfin ein og sér geti haft mikil umhverfisáhrif og gagnrýnir hvernig staðið er að veitingu þeirra. „Orkustofnun veitir leyfi að fengnum umsögnum frá Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, eftir föngum Hafrannsóknastofnun og landeigendum, en það er ekki haft samband við sveitarfélögin nema því aðeins að þau eigi land að viðkomandi virkjunarsvæði á þessu stigi máls, þrátt fyrir skipulags- og framkvæmdavaldið liggi þar. Það getur verið náttúruverndarmál að gefa út rannsóknarleyfi því það veitir leyfi til að fara út um allt með tæki og tól og eftir föngum að grafa könnunarskurði, bora holur og leggja vegslóða.“

Kalla eftir friðlýsingu

Í ályktun NAUST er skorað á sveitarfélögin að beita sér fyrir því að sá hluti Hraunanna sem enn sé ósnortinn af virkjunum verði friðlýstur, inn af því órsaksaða svæði er þegar að finna lón og mannvirki sem eru hluti Kárahnjúkavirkjunar. Hraunin eru sögð búa yfir sérstæðu náttúrufari, smájöklum, vötnum, jarðfræði og gróðurfari sem lítið hefur verið rannsakað hingað til. Þá falli árnar sem til skoðunar séu um langa og litríka dali, prýddar fögrum fossum.

„Við viljum að svæðið verði skilgreint sem óröskuð víðerni og falli undir friðlýstan Miðhálendisþjóðgarð. Það skiptir miklu máli að eiga eitthvað eftir af ósnortnum víðernum. Hraunasvæðið er nú á mörkum þess að geta talist ósnortið víðerni og ef þessar virkjanir verða að veruleika sem nú eru á teikniborðinu erum við að tala um óafturkræf náttúruspjöll þar sem restin af Hraunasvæðinu verður fórnað. Spurningin er hvort við séum í alvörunni tilbúin að fórna náttúrunni og síðustu dropunum, af hálendi okkar í nafni einkavæðingar þar sem arðurinn af auðlind okkar mun renna til fárra útvaldra ?“ spyr Andrés.

Hvað verður um orkuna?

Hann segir heldur ekki ljóst hvað verði um orkuna frá smávirkjunum. Almennt sé talað um að tengja þær við almenna raforkunetið og selja inn á það. Þar með verði orkan ekki nýtt sérstaklega á Austurlandi. Hann bendir einnig á að þau fyrirtæki sem fengið hafi rannsóknarleyfi geti á síðari stigum framselt þau til annarra fyrirtækja.

„Þetta er ekki bara náttúruverndarmál. Orkan okkar er nú skilgreind sem vara á samkeppnismarkaði. Við tölum samt um að þetta sé sameign þjóðarinnar en það er ekkert í vegi fyrir því eins og staðan er að erlend orkufyrirtæki komi inn og kaupa upp vatnsföllin okkar. Það verður að stöðva.“

Hann kallar eftir umræðu um áformin á Hraunasvæðinu í heild sinni. „Það eru allir möguleikar á að stækka þessar virkjanir sem nú eru til umræðu frá því sem gefið er upp. Við viljum að almenningur, ekki síst Austfirðingar, séu upplýstir áður en ákvarðanir sem geta leitt til einhvers meira eru teknar. Umræðan í kringum okkur hefur verið grunn og við teljum þörf á gagnrýninni umræðu um hvað er undir.“

Ódáðavötn. Mynd frá Andrési Skúlasyni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.