Síldarvinnslan stefnir á að láta smíða nýja ísfisktogara

Síldarvinnslan í Neskaupstað stefnir á endurnýjun ísfisktogaranna fjögurra sem gerðir eru út á vegum samsteypunnar á næstunni. Hagnaður hennar nam 4,1 milljarði króna á síðasta ári.


Þetta kom fram á aðalfundi félagsins sem haldinn var á föstudag. Á vegum Síldarvinnslunnar eru ísfisktogararnir Barði NK, Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE en síðarnefndu togararnir tveir eru gerðir út af dótturfélaginu Bergur-Huginn.

Gunnþór B. Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir í svari við fyrirspurn Austurfréttar að endurnýjunin sé „mikið verkefni sem mun taka smá tíma að láta verða að veruleika.“

Fyrstu skrefin hafa þegar verið stigin. Bjartur NK var seldur til Íran í fyrra og verið er að skoða sölu á Barða NK til Rússlands. Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti í apríl að nýta ekki forkaupsréttar heimild á Barða en í bókun er Síldarvinnslan hvött til að tryggja að störf sjómanna tapist ekki við söluna.

Í tilkynningu Síldarvinnslunnar segir að millibilsástand muni skapast vegna sölunnar. Leitast verði við að bjóða sjómönnum störf á örðum skipum félagsins eða í landi eða skoða aðrar lausnir.

Á undanförnum tveimur árum hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki látið smíða fyrir sig níu nýja ísfiskstogara. Austfirsku sjávarútvegsfyrirtækin hafa hins vegar endurnýjað skip sín með að kaupa nýleg skip. Gunnþór segir útlit fyrir að Síldarvinnslan láti smíða fyrir sig ný skip þar sem engin notuð nýleg skip séu á markaðinum.

Barði NK var smíðaður árið 1989 og þá til landsins sem Snæfugl SU 20 en fékk nýtt nafn árið 2002. Gullver er smíðað árið 1983. Bæði skipin koma frá Flekkefjord skipasmíðastöðinni í Noregi.

Á aðalfundinum var einnig kynnt afkoma síðasta árs en hagnaður fyrir skatta nam 5,1 milljarði króna en 4,1 milljarð eftir skatta. Samþykkt var að greiða 1,2 milljarða í arð til hluthafa.

Hjá fyrirtækinu störfuðu 347 manns í fyrra, launagreiðslur námu 3,8 milljörðum króna og þar af greiddu starfsmenn 1,3 milljarð í skatta. Rekstrartekjur Síldarvinnslunnar námu 18,4 milljörðum. Í tilkynningu kemur fram að fyrirtækið hafi greitt 2,6 milljarða í tekjuskatt og veiðigjöld.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar