Seyðfirðingar mynda nei til að mótmæla fiskeldi

Boðað hefur verið til samstöðufundar gegn áformum um fiskeldi í Seyðisfirði í miðbænum þar seinni partinn í dag. Skipuleggjendur mótmælanna furða sig á að eldinu sé haldið til streitu gegn vilja fjölda bæjarbúa.

„Við erum mjög einbeitt á móti þessu og skiljum ekki hvers vegna nokkurt fyrirtæki vill fara inn í samfélagið við slíkar kringumstæður. Einhvers staðar liggur fiskur undir steini og ég hef grun um að eitthvað gerist á verðbréfamarkaði þegar leyfið fæst,“ segir Þóra Guðmundsdóttir, ein þeirra sem skipuleggur mótmæli.

Til staðar er umsókn Ice Fish Farm um að ala allt að 10.000 tonn af laxi í Seyðisfirði. Þau áform hafa mætt harðri andstöðu. Í desember 2020 skrifaði yfir helmingur íbúa á kosningaaldri undir undirskriftalista. Í mars kom fram skoðanakönnun sem sýndi 75% andstöðu gegn eldinu.

Í dag klukkan 16:00 hefur verið boðað til samstöðufundar í miðbæ Seyðisfjarðar. Flutt verða ávörp auk þess sem þjóðþekkt tónlistarfólk kemur fram.

Hápunkturinn verður þegar þátttakendur raða sér upp til að mynda orðið nei á bílastæðinu við Hótel Snæfell.

„Vði ætlum að stilla upp í mótmælastöðu sem segir nei. Fólk fær númer sem passar við tölur sem málaðar hafa verið á steinvölur sem verða á bílastæðinu.“

Að sögn Þóru hefur á annað hundrað Seyðfirðinga boðað komu sína á mótmælin auk þess sem stuðningur berst víðar. „Ég hef ekki talað við neinn sem segist standa með fiskeldinu. Við finnum stuðning alls staðar að. Núna er sumarfrísfólk svo það komast ekki allir en margir þeirra segjast vera með okkur í anda.“

Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar bindur Ice Fish Farm vonir við að leyfi verði gefin út fyrir eldinu í haust. „Málið flakkar nú milli skrifborða í Reykjavík. Við vitum ekki nákvæmlega hvar það er statt. Þær stofnanir vita okkar hug.

Mestu vonbrigðin eru hins vegar að hafa ekki stuðning okkar eigin sveitarfélags. Það segist ekkert hafa með málið að gera en stendur heldur ekki með okkur því við sameininguna var lofað að við fengjum að halda okkar rödd og sérkennum,“ segir Þóra að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.