Óánægja Seyðfirðinga kemur ekki óvart

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Múlaþings, tók í dag á móti undirskriftum um 280 Seyðfirðinga þar sem mótmælt er áformum um 10 þúsund tonna laxeldi á vegum Fiskeldis Austfjarða í firðinum. Hann segir mótmælin styðja við gagnrýni nefnda sveitarfélagsins um skort á samráði um eldið.

„Þessi fjöldi undirskrifta kemur mér ekki á óvart. Það er ljóst að það hefur verið óánægja sem snýst að hluta til um samskiptaleysi. Því hefur fólk kallað eftir upplýsingum og samráði,“ segir Björn.

Undirskriftasöfnunin hófst um miðjan nóvember eftir að Fiskeldi Austfjarða skilaði inn frummatsskýrslu vegna eldisins til Skipulagsstofnunar. Forsögu málsins má hins vegar rekja allt aftur til ársins 2002.

Frummatsskýrslan er hluti af lögbundnu skipulagsferli en frestur til að senda inn athugasemdir við hana er til 28. desember. „Ég veit ekki hvort þessar undirskriftir breyti miklu í ferlinu en þær styðja við þær áherslur sem komu fram hjá heimastjórn Seyðisfjarðar þar sem kallað var eftir virku samráði við Seyðfirðinga. Það er ekki verra að fá stuðning frá íbúum við það ákall,“ segir Björn.

Sveitarstjórn gagnrýnin á áformin

Heimastjórnin krafðist þess að fyrirtækið kæmi strax á virku samtali um eldið, meðal annars staðsetningu kvía. Þá hefur umhverfis- og framkvæmdanefnd kallað eftir að lokið verði við haf- og strandsvæðaskipulag fyrir Seyðisfjörð samkvæmt lögum frá árinu 2018. Lögin eru hins vegar ekki afturvirk og eiga því ekki við um umsókn Fiskeldis Austfjarða.

Bókanir nefndanna, sem og umsögn Múlaþings um skýrsluna, verða tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar á morgun. „Bókanirnar eru mjög ákveðnar, einkum frá heimastjórninni, á samráðið. Það hefur líka komið fram mjög ákveðin gagnrýn á staðsetningu minnst eins eldissvæðisins. Ég á frekar von á að sveitastjórn taki undir þessar áherslur og staðfesti umsögn sveitarfélagsins. Þessi skilaboð fara jafnframt frá sveitarfélaginu til eldisaðilanna. Síðan heldur þetta ferli áfram.“

Galli að skipulagið sé ekki sveitarfélaganna

Málið kemur meðal annars inn á deilur um skipulag haf- og strandsvæða. Skipulag í landi er alfarið á forræði sveitarfélaga en þegar komið er út á firði er það í höndum nefnda sem samsett eru af fulltrúum ríkis og sveitarfélaga. Þess vegna hefur Múlaþing takmörkuð áhrif á hvar fiskeldi er stundað.

„Skipulagsvaldið er ekki á forræði sveitarfélagsins. Það er nokkuð sem við höfum gagnrýnt reglulega að óeðlilegt sé að sveitarfélög á standsvæðum hafi lítið með skipulagið að gera. Við hefðum talið eðlilegt að skipulagsvaldið væri í viðkomandi sveitarfélagi en þessu eru ekki allir sammála. Því gera lögin ráð fyrir öðru.

Það sem sveitarfélögin gera þá er að koma sínum áherslum á framfæri og ég hef fulla trú á að horft sé til þess sem kemur frá þeim.“

Fundað verði með íbúum

Fiskeldi Austfjarða keypti árið 2015 upp eldra leyfi upp á 200 tonn í firðinum. Björn segir ekki hægt að segja að fyrirtækið nýti það leyfi til að komast bakdyramegin inn í skipulagsferlið, það hafi unnið eftir lögum. Hins vegar sé hægt að gagnrýna að það hafi ekki haft nægt samráð við nærsamfélagið um áform sín. 

„Við köllum eftir að fá aðila á fund, ekki bara með kjörnum fulltrúum, heldur með íbúum þannig þeir geti kynnt sér beint frá viðkomandi aðilum hvað er í gangi. Það skiptir máli að sambandið sé milliliðalaust.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.