Rýmingin gekk vel

Um fimmtíu manns komu við í fjöldahjálparstöð í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði eftir að hús við fjórar götur í bænum voru rýmd eftir að tvær aurskriður féllu niður í bæinn í dag.

Það var klukkan 14:55 sem lögreglu bárust tilkynningar um skriðuföll ofan við götuna Botnahlíð. Seinni skriðan féll 15:33. Hún var stærri og fór niður að menningarmiðstöðinni Skaftfelli sem stendur við Austurveg.

Báðar eiga upptök sín í Botnabrún, sú seinni í Nautaklauf. Tjón af þeirra völdum kemur betur í ljós í fyrramálið en engin slys urðu á fólki. Í frétt frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar segir að fyrri skriðan hafi fallið á hús við Botnahlíð en ekki valdið á því tjóni.

Í kjölfarið var farið að rýma hús við fjórar götur undir Botnum frá Dagmálalæk að Búðará. Björgunarsveitin Ísólfur aðstoðaði við rýminguna. Helgi Haraldsson, formaður hennar, segir aðgerðina hafa gengið vel. „Almennt tók fólk vel í þetta,“ segir hann.

Um fimmtíu manns leituðu í Herðubreið en sumir fóru beint til ættingja og vina annars staðar í bænum. „Fólk hefur fengið að borða hér og einhverjir hafa athvarf hér fram eftir kvöldi. Flestir eru komnir með gistingu út í bæ,“ segir Aðalheiður Borgþórsdóttir, fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings á Seyðisfirði sem verið hefur í fjöldahjálparmiðstöðinni.

Hún segir íbúa rólega þótt aðstæður séu óþægilegar. „Auðvitað slær óhug að fólki þegar svona gerist en almennt er fólkið rólegt.“

Aurskriðurnar koma í kjölfar mikilla rigninga sem staðið hafa nær samfleytt frá því síðasta miðvikudagskvöld. „Það er rosalega blautt hér því það hefur rignt mikið,“ segir Helgi sem býst eins og fleiri við að fleiri skriður komi í ljós þegar birtir í fyrramálið.

Næstu tilkynningar frá almannavörnum er að vænta klukkan tíu í fyrramálið að loknum fundi með sérfræðingum Veðurstofu Íslands. Áfram er útlit fyrir rigningu á svæðinu næstu daga þótt vonast sé til að heldur dragi úr henni á morgun.

Jarðvegur í neðri hluta hlíða víðar á Austfjörðum er vatnsmettaður eftir rigningar síðustu daga. Nú snjóar niður fyrir miðjar hlíðar sem dregur heldur úr líkunum á skriðuföllum. Vitað er af skriðum á Eskfirði og við utanverðan Fáskrúðsfjörð.

Mynd: Ómar Bogason


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar