Rýming áfram í gildi í nótt

Rúmlega 100 manns sem þurftu að yfirgefa heimili sín á Seyðisfirði á þriðjudag vegna skriðuhættu fá enn ekki að snúa heim til sín. Skriður hafa fallið víðar á Austfjörðum í dag.

Uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði frá því klukkan 15:00 í gær var á sjöunda tímanum í kvöld komin í um 140 mm á veðurstöðinni í bænum og þar með í tæplega 600 mm frá 10. desember þegar rigningartíðin hófst.

Spáð er áframhaldandi úrkomu í nótt og meðal annars af þeim sökum er ekki talið óhætt fyrir íbúa að snúa aftur til heimila sinna. Staðan verður tekin um klukkan ellefu á morgun, meðal annars hvort íbúum teljist óhætt að huga að eigum sínum á rýmingarsvæði.

Í frétt frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar segir að nokkrar skriður hafi fallið á Seyðisfiðri í dag, úr Botnabrún, í Búðará og svo fór skriða yfir veg vestan Selstaða út með firðinum að norðanverðu. Þá féll einnig skriða í Eskifirði, nokkuð utan við kaupstaðinn. Áfram verður fylgst vel með þróuninni á báðum stöðum.

Fjöldahjálparstöð er opin til klukkan tíu í kvöld og hún opnar aftur klukkan átta í fyrramálið. Hús björgunarsveitarinnar Ísólfs er opið á sama tíma og er hægt að leita þar frekari upplýsinga.

Bæði vegna skriðuhættunnar og Covid-19 faraldursins ræður aðgerðastjórn almannavarna frá ferðum til Seyðisfjarðar. Þeir sem þurfa að fara þangað eru beðnir um að láta lögregluna vita áður í síma 444 0600 eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Þá er ítrekað fyrir þeim að gæta að smitvörnum, svo sem grímunotkun, tveggja metra fjarlægð, handþvotti og sprittnotkun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.