Rúmar 11 milljónir í verkefni á Austurlandi

Minjastofnun úthlutaði nýverið viðbótarframlögum úr húsafriðunarsjóði en hluti af viðbrögðum stjórnvalda vegna efnhagssamdráttar í kjölfar Covid-19 var að veita 100 milljónum aukalega í sjóðinn. Alls hlutu 36 verkefni styrk að þessu sinni, þar af 5 á Austurlandi.

Í tilkynningu Minjastofnunar kemur fram að í ljósi aðstæðna hafi ekki þótt raunhæft að opna fyrir umsóknir um ný verkefni, heldur var ákveðið að líta til þeirra verkefna sem sótt var um styrki til á síðasta umsóknartímabili og mat hafði verið lagt á. Litið var sérstaklega til verkefna sem ráðast má í strax og ljúka á þessu sumri, með vísan til þess að nýta skyldi viðbótarféð í atvinnuskapandi verkefni á svæðum sem verða fyrir hvað mestum efnahagslegum þrenginum vegna Covid 19. Flestir styrkirnir eru hækkun á áður veittum styrk, en fjórir styrkjanna eru til verkefna sem ekki var unnt að styrkja í fyrri úthlutun úr sjóðnum, en voru engu að síður talin verðug verkefni.

 

Rúmar 11 milljónir austur
Af þeim 60 milljónum sem úthlutað var renna 11,4 milljónir til verkefna á Austurlandi og skiptast þær þannig.

Bakkaeyri á Borgarfirði eystri 3 milljónir
Gamla Skipasmíðastöðin á Seyðisfirði 2,9 milljónir
Gamla Lúðvíkshúsið í Neskaupstað 2 milljónir
Lindarbakki í Breiðdal 2 milljónir
Gamla kirkjan á Djúpavogi 1,5 milljónir

Til viðbótar þeim fjármunum sem úthlutað var til einstakra verkefna var 40 milljónum veitt beint í Húsasafn Þjóðminjasafns Íslands. Reikna má með því að eitthvað af þeim fjármunum nýtist hér eystra en í Húsasafninu eru meðal annars torfbæirnir á Bustarfelli í Vopnafirði og Galtastöðum fram í Hróarstungu, auk Sómastaðahússins í Reyðarfirði og gamla íbúðarhússins á Teigarhorni í Berufirði.

Mynd: Gamla Lúðvíkshúsið í Neskaupstað var flutt á nýjan stað í fyrra

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar