Ritstýrir nýjum þætti á N4 í vetur

Héraðsbúinn Vigdís Diljá Óskarsdóttir mun ritstýra nýjum sjónvarpsþætti á sjónvarpsstöðinni N4 í vetur.



„Ég sótti bara um starfið og bjóst ekkert frekar við að ég kæmi til greina,“ segir Vigdís Diljá, en hún er einnig að hefja sitt þriðja og síðasta námsár í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

„Ég er náttúrlega bara nýskriðin yfir tvítugt og ekki komin með háskólagráðu eða nokkra reynslu þannig lagað í þessum geira. Fyrir utan að það sóttu 40 manns um starfið. Ég var samt svo spennt að ég sagði nánast öllum sem ég mætti frá því að ég væri að sækja um. Það var kannski eftirá að hyggja ekki sérlega sniðugt en það var gaman að geta sagt fólki sem spurði svo að ég hafi fengið starfið," segir Vigdís Diljá. 

Í þættinum verður ungt fólk sett í fókus og umfjöllunarefnin af ýmsum toga. „Það er alveg ótrúlega spennandi að fá svona stórt verkefni upp í hendurnar. Ég hlakka til að vinna að því og sýna afraksturinn. Hér er frábær starfsandi og greinilegt að allir taka jákvæðnisvítamín og orkuskot á morgnana sem er ferlega mikilvægt þegar verkefnin eru fjölmörg og mjög mismunandi.“


Helgi Seljan stór fyrirmynd

Vigdís Diljá segist ekkert endilega hafa verið ákveðin í því að fara í skóla þegar hún skráði sig. „Mamma setti mig eiginlega bara fyrir framan tölvuna á síðasta degi skráninga og sagði mér að nú væri komið að því.

Það sem fékk mig til að skrá mig í þetta fag voru margir samverkandi þættir. Ég hef í fyrsta lagi alltaf haft gaman að því að skrifa og tala og taka upp myndbönd. Svo starfaði mamma í fjölmiðlum þegar ég var yngri og ég elskaði að fá að dingla mér með henni í því. Það sem setti punktinn yfir I-ið var líklega heimsókn Helga Seljan í stjórnmálafræðitíma í ME. Hann hafði lengi verið og er enn stór fyrirmynd fyrir mig og ég áttaði mig á því í þessari örlagaríku kennslustund að þetta væri það sem ég ætlaði að gera.

Ég flutti norður þegar ég byrjaði í skólanum og sé alls ekki eftir því, Akureyri er yndislegur bær! Námið við HA hefur verið í senn skemmtilegt, krefjandi og ýtt mér út fyrir þennan þægindarammann sem allir eru að tala um.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.