Ragnar gefur kost á sér hjá Sjálfstæðisflokknum

Ragnar Sigurðsson, lögfræðingur og bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, gefur kost á sér í 3. – 4. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir þingkosningarnar í haust.

Í tilkynningu segist Ragnar hafa undanfarna daga rætt við flokksfólk víða í kjördæminu um vangaveltur sínar og kannað hug þeirra til mögulegs framboðs.

„Mér þykir vænt um þann stuðning og það traust sem ég hef fundið fyrir í þeirri yfirferð. Ég er tilbúinn að leggja mitt af mörkum nú sem endranær og vona að ég fái stuðning ykkar í komandi prófkjöri.

Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að starfa með flokksfélögum og kjósendum um allt land sem hafa treyst mér fyrir hinum ýmsu trúnaðarstöðum í gegnum tíðina bæði í innra starfi flokksins og innan sveitarstjórnarmálanna.“

Af málefnum nefnir Ragnar atvinnulífið og aukna verðmætasköpun sem séu nauðsynleg til að svara þeim áhrifum sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á þjóðarbúið.

„Í því samhengi þarf að horfa til þess að auka súrefnisflæðið til atvinnulífsins t.a.m. með því að lækka tryggingagjaldið, draga úr regluverki, auka skilvirkni eftirlitsiðnaðar (stytta málmeðferðartíma, útrýma tímaeyðslu og óþarfa) og einfalda allskyns leyfaumsóknir. Kerfið má ekki og á ekki a draga úr krafti einstaklingsframtaksins.

Hið opinbera, vex á ógnarhraða. Hin almenni markaður getur ekki borið uppi báknið sem hið opinbera er orðið. Góð leið til þess er að auka skilvirkni með aukinni tæknivæðingu og nútímavæða „kerfið“ eins og forysta flokksins boðar nú en það eitt og sér dugar ekki til – við þurfum að minnka „kerfið“ samhliða tæknivæðingunni.

Að skapa kraft, hvata og frelsi fyrir einstaklingsframtakið, verðmætasköpun og þjóðfélagið í heild verða mín leiðarstef en einnig mun ég tala fyrir heildar endurskoðun á málefnum öldrunarþjónustu, aukinn fjölbreytileika í heilbrigðisþjónustu með aðkomu einkaaðila, arðsamar og skilvirkar samgöngubætur, eflingu Loftbrúar (skoska leiðin) svo fátt eitt sé nefnt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar