Ráðherra ánægður með þróun á Seyðisfirði og Borgarfirði eystra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, heimsótti Seyðisfjörð og Borgarfjörð eystri nýlega og kynnti sér uppbyggingu í húsnæðismálum á svæðinu.

Fjallað er um málið á vefsíðu ráðuneytisins. Þar segir að á báðum stöðum eru í farvatninu verkefni sem fóru í gang eftir að ráðherra gerði  breytingar á reglugerð sem gerir það að verkum að sveitarfélög, einstaklingar og óhagnaðardrifin félög á landsbyggðinni geti tekið lán hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) til húsnæðisuppbyggingar á stöðum þar sem önnur fjármögnun er ekki í boði.

Á Seyðisfirði er þróun húsnæðiskjarna fyrir 55 ára og eldri í fullum gangi þar sem fyrirhugað er að byggja allt að átta 2-3 herbergja íbúðir og er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist mjög fljótlega. Verkefnið er hluti af tilraunaverkefni um uppbyggingu í húsnæðismálum á landsbyggðinni og fékk sveitarfélagið styrk frá HMS til þróunar á verkefninu.

Á Borgarfirði eystri kynnti ráðherra sér byggingu á tveimur parhúsum með samtals fjórum íbúðum en undirstöður húsanna voru nýlega steyptar.

Sveitarfélagið fékk úthlutað stofnframlögum til þess að koma framkvæmdinni af stað en um er að ræða fyrstu nýbyggingu á Borgarfirði Eystri síðan 1985.

„Það er gaman að sjá að þessi breyting á reglugerðinni er að skila sér af krafti á staði eins og Seyðisfjörð og Borgarfjörð Eystri þar sem lítið sem ekkert hefur verið byggt af íbúðarhúsnæði undanfarna áratugi vegna markaðsbrests.“ segir Ásmundur Daði Einarsson á vefsíðunni.

„Með reglugerðarbreytingunni er hægt að fá lán til byggingar nýs húsnæðis á svæðum sem glíma við þetta sérstaka misvægi í byggingarkostnaði og markaðsverði, sem aftur styður svo við atvinnuuppbyggingu á svæðinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar