Óvissustigi almannavarna lýst á Seyðisfirði

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands lýsa yfir óvissustigi almannavarna á Seyðisfirði eftir að tvær aurskriður féllu úr Botnum annarsvegar niður í Botnahlíð og á Austurveg.

Önnur skriðan féll á hús en samkvæmt fyrstu upplýsingum eru skemmdir sagðar óverulegar. Þá hafa engar upplýsingar borist um slys á fólki.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra. Þar segir að aðgerðarstjórn hefur verið virkjuð á svæðinu. Tekin hefur verið ákvörðun um að rýma hluta af svæði svæði C á Seyðisfirði. Rýma þarf eða vara íbúa við að hafast ekki við fjallsmegin í húsum á C-svæði undir Botnum frá Dagmálalæk að Búðará. Einnig B- og C-svæði ofan Gamla Austurvegar, og Austurveg 42, Hafnargata 18b til 38a, ofan götunnar. Sleppa má Botnahlíð 9, 11 og 13.

 

Rauði kross Íslands hefur opnað fjöldahjálparstöð í Herðubreið á Seyðisfirði.

Við þetta má bæta að samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu er björgunarsveitarfólk komið á svæðið til að rýma hluta af áhrifasvæði flóðanna, vakta umferð um svæðið og huga að íbúum. Sú vinna er nú í gangi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar