Orlof skal alltaf tiltekið á launaseðli

Austfirskt útgerðarfyrirtæki hefur verið dæmt til að greiða fyrrum starfsmanni tæpar 450 þúsund krónur í vangoldið orlof. Útgerðin telst bera allan halla af því að orlof var ekki skráð á launaseðil sjómannsins.


Deilt var um hvort orlofið hefði verið inni í heildarlaunum starfsmannsins eða ekki. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur milli deiluaðila en forsvarsmaður útgerðarinnar bar að þeir hefðu sammælst um að orlofið yrði innifalið í laununum.

Hann hélt því fram að form seðilsins skipti ekki máli heldur greiðslan. Á sex mánaða starfstíma árið 2015 hefði sjómaðurinn fengið um milljón meira í brúttólaun heldur en lágmarkslaun með orlofi væru samkvæmt kjarasamningunum.

AFL Starfsgreinafélag rak málið fyrir hönd sjómannsins og í stefnu þess er þessum rökum hafnað. Ekkert á launaseðlunum bendi til þess að orlofið hafi verið innifalið í laununum. Útgerðinni hafi borið skylda til að sýna það og gera skriflegan ráðningarsamning. Því væri með engu móti ráðið hvernig orlofið hefði verið reiknað.

Undir þessi tók dómurinn og benti á að það væri fortakslaus skylda atvinnurekanda að skrá orlof sérstaklega á launaseðil við hverja launagreiðslu auk þess sem hann hefði vanrækt að gera skriflegan samning.

Útgerðin var því dæmd til að greiða sjómanninum fyrrverandi tæpar 450 þúsund krónur í vangoldið orlof auk dráttarvaxta og 750 þúsund í málskostnað.

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar