Öll eins árs gömul börn í Fjarðabyggð eiga nú kost á leikskólavist

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, afhenti Höllu Höskuldsdóttur, leikskólastjóra, formlega lykilinn að Eyrarvöllum í Neskaupstað í morgun. Fyrsti starfsdagur nýja leikskólans er í dag og var eftirvæntingin mikil.

„Þetta er afar ánægjulegur dagur, en börn og foreldrar voru farin að streyma í leikskólann þar sem glatt var á hjalla og eftirvæntingin mikil,“ segir Páll Björgvin.

Fyrsta skóflustungan var tekin fyrir liðlega einu og hálfu ári, í janúar 2015, og hefur bygging leikskólans gengið vel og er á áætlun. Páll Björgvin segir að enn eigi þó eftir að fullklára lóðina, en formleg opnunarhátíð verður laugardaginn 17. september. Heildarkostnaður við verkefnið verður um 650 milljónir kr.

„Það er ánægjulegt að segja frá því að með þessum áfanga getum við í Fjarðabyggð boðið öllum 12 mánaða gömul börnum leikskólavist, en Neskaupsstaður er eini byggðarkjarninn í Fjarðabyggð þar sem þurft hefur að brúa bilið með dagmæðrum. Ég sá frétt frá Reykjavík í gær þar sem stefnt er að því þar að ná öllum 12 mánaða börnum inn á leikskóla í framtíðinni, þannig að við erum mjög sátt við okkar stöðu á þessum tímapunkti“.

Páll Björgvin segir að ákveðið hafi verið að byggja átta deilda leikskóla, en áður var leikskólinn í tveimur byggingum og deildirnar fimm. „Nú þegar verða teknar í notkun sex deildir og áætlað er að þær verði sjö um áramót, en mörg börn hafa verið að fæðast á svæðinu og vonum við svo sannarlega að þannig verði það áfram. Það er mikilvægt samfélagsmál að bjóða upp á góða leikskóla þar sem atvinnulífið er sterkt og atvinnuþátttaka mikil, og góðir leikskólar styrkja stoðirnar í sveitarfélaginu.

„Nú getum við farið að skoða næstu verkefni sem lúta að leikskólamálum, sem er að skoða stækkun leikskóla bæði á Reyðarfirði og á Eskifirði,“ segir Páll Björgvin að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.