Ólga og pirringur hjá lögreglunni út í lögreglustjóra

Kurr er í röðum lögreglumanna á Austurlandi vegna samskiptavanda við lögreglustjóra. Fyrrum trúnaðarmaður sakar lögreglustjórann um að hafa brotið lög með að lækka hann um launaflokk. Lögreglustjóri kannast ekki við óánægju starfsmanna.


Austurfrétt hefur að undanförnu rætt við lögreglumenn af nokkrum stöðvum á Austurlandi sem lýsa mismikilli ánægju með samskipti sín og stjórnunarhætti Inger L. Jónsdóttur, lögreglustjóra. Lögreglumenn tala um „ólgu og pirring“ innan embættisins og saka Inger um að fara ekki að lögum, einkum hvað varðar kjarasamninga.

Mesta óánægjan snýr að skilum á vinnutímum. Lögreglumennirnir segja innbyggða reikniskekkju í vaktkerfi þeirra sem lögreglustjóri taki ekki tillit til. Skekkjan valdi því að lögreglumennirnir virðist ekki alltaf tilskyldum fjölda vinnutíma. Það lagist við endurútreikninga. Það hafi lögreglustjórinn ekki hlustað á.

Sérstakrar óánægju gætir með framkomu lögreglustjórans gagnvart tveimur ungum lögregluþjónum sem fengu þau skilaboð eftir að þeir hættu störfum hjá embættinu að þeir hefðu ekki skilað vinnutímum. Eftir athugasemdir hafi lögreglustjórinn bakkað með aðgerðir gegn tvíeykinu.

Ekki gengið hart að starfsmönnum vegna vinnustunda

Inger L. Jónsdóttir, lögreglustjóri, segir að rétt að vegna uppsetningar vaktakerfis 2015, sem starfsmenn hafi átt stærstan þátt í að búa til, hafi komið í ljós „mis mikil vanskil hjá lögreglumönnum á vinnustundafjölda sem skapast frá því að kerfið var keyrt.

Það mál er ekki ágreiningsmál heldur málefni sem rætt er við starfsmenn og leitað leiða til að leiðrétta kerfið þannig að vanskil myndist ekki.

Það er hins vegar ekki rétt að um smásmygli sé að ræða né að það hafi verið gengið hart að starfsmönnum mínum af þessu tilefni.“

Trúnaðarmaður sakar lögreglustjóra um að fara ekki að lögum

Pirringur virðist ekki bundinn við eina starfsstöð en virðist þó hvað mestur uppi á Héraði. Þar hefur lögreglustjórinn staðið í deilum við fyrrverandi trúnaðarmann um starfskjör.

„Ég er forviða þegar lögreglustjórar telja sig ekki þurfa að fara að landslögum,“ segir Jens Hilmarsson, lögreglumaður á Egilsstöðum og fyrrverandi trúnaðarmaður þar.

Jens sakar lögreglustjórann um að fara ekki að lögum þegar hann lækkaði sig um launaflokk fyrir nokkrum misserum meðan Jens var trúnaðarmaður. Samkvæmt 30. grein laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna er óheimilt að flytja trúnaðarmann í lægri launaflokk meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.

Jens segir að lögreglustjórinn hafi, þrátt fyrir mótmæli af sinni hálfu og ábendingar um lagagreinina, lækkað hann í launum. Hann segist fá svör hafa fengið, verið vísað á nokkra staði en fengið að lokum yfirlýsingu um að hann fái ekki leiðréttingu launa sinna.

Inger kvaðst ekki getað tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna þegar Austurfrétt leitaði eftir viðbrögðum við málinu í vor.

„Ég kannast við að það hafi verið uppi ágreiningur við einn starfsmann embættisins, sem stafaði af leiðréttingu starfsheitis við tilfærslu á milli embætta þegar umdæmabreytingin varð og hagræðingu vegna fjárhagsstöðu þess,“ var svar lögreglustjórans síðar þegar bornar voru undir hana fullyrðingar um víðtæka óánægju innan lögreglunnar. Samtöl Austurfréttar sýna að pirringurinn er ekki bundinn við einn starfsmann.

Bílinn bilaði á leið í útkall

Óánægja í röðum lögreglumanna í norðurhluta umdæmisins, sem áður tilheyrði sýslumanninum á Seyðisfirði er ekki ný af nálinni. Við sameiningu lögregluembættanna á Seyðisfirði og Eskifirði í eitt fyrir rúmum tveimur árum vonuðust lögreglumenn Seyðisfjarðarembættisins eftir að þar væru hlutirnir komast á lygnari sjó. Það virðist ekki hafa gengið eftir.

Fleira hefur pirrað Héraðsbúana. Þvert á mótmæli þeirra fengu þeir jeppling sem verið hafði verið í notkun á Norðfirði en var orðinn mikið keyrður og slitinn. Bíllinn bilaði á leið í útkall á Háreksstaðaleið þar sem bílslys hafði orðið. Lögreglumaðurinn mátti húkka sér far með kranabíl á leið á slysstað. Sem betur fer var slysið ekki alvarlegt.

Alltaf klipið

Lögreglumenn á Austurlandi telja fleira til í samskiptum sínum við lögreglustjórann sem hefur ergt þá, til dæmis að vera sendir á námskeið í Reykjavík á frídögum, ósveigjanleika þegar komi að styrk til líkamsræktar, síendurteknum athugasemdum við bakvaktir og að lítið sé um frjáls skoðanaskipti.

Lögreglumennirnir upplifa ástandið sem svo að yfirleitt sé reynt að klípa af þeim tíma, jafnvel þann sem þeir eigi rétt á samkvæmt kjarasamningum. „Það er alltaf jafn mikið grætt hjá embættinu en við erum pirraðir.“ Sumir þeirra lögreglumanna sem Austurfrétt ræddi við sögðu reyndar að lögreglustjórinn hefði í gegnum tíðina reynt að bæta samskipti sín gagnvart lögreglumönnunum og báru henni almennt vel söguna.

Inger segir að um bakvaktir og vaktaálög sé í gildi sérstakur samningur milli lögreglumanna og embættisins. Það hafi verið gert með aðkomu Lögreglufélags Austurlands og um það sé ekki ágreiningur. Ekki sé heldur deilt um námskeið, fundi og frítöku enda verklagsreglur þar um.

Fá ekki áheyrn vegna vandræðanna syðra

Lögreglumenn sem Austurfrétt ræddi við segja lögreglustjórann hafa gripið seint í taumana. Jafnvel of seint. Nú sé lítið eða ekkert traust á milli þeirra og lögreglustjórans.

Leitað hafi verið til ráðherra en tími bæði hennar og Landssambands lögreglumanna hefur allur farið í að leysa úr óánægju innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Lögregluþjónarnir á Austurlandi hefðu helst viljað leysa málin innanhúss, eins og hefðin sé innan lögreglunnar. Þeir hafi hins vegar talað fyrir daufum eyrum og sjái þeir sig nú tilneydda til að greina opinberlega frá stöðunni.

Kannast ekki við ólgu

Inger kannast ekki við ólgu innan lögreglunnar. „Það eru fréttir fyrir mig að það sé ólga milli mín og lögreglumanna, ég kannast ekki viðað svo sé. Það eru nokkrar leiðir fyrri alla starfsmenn embættisins til að eiga við mig samtal. Í fyrsta lagi er tölvupóstur, í öðru lagi beinn sími og GMS og í þriðja lagi er mjög auðvelt að óska eftir viðtali.“

Hún segist hafa haft samband við formann Lögreglufélags Austurlands og trúnaðarmanns lögregluliðsins eftir fyrirspurn Austurfréttar og fengið þær upplýsingar um að engar kvartanir liggi fyrir hjá þeim varðandi hennar störf.

Inger bendir einnig á að embættið hefi komið vel út í nýlegri könnun SFR um stofnun ársins þar sem meðal annars er könnuð ánægja með stjórnun, aðbúnað og laun. Könnunin er nokkuð hlutlaus gagnvart lögreglunni á Austurlandi, bæði borið saman við önnur lögregluembætti landsins og aðrar álíka stórar ríkisstofnanir. Austfirskir lögreglumenn virðast ánægðir með sjálfstæði í starfi og sveigjanleika vinnunnar en óánægðir með laun sín, þó ekki nærri jafn ósáttir og öðrum embættum landsins.

„Staðreyndin er sú að, að Lögreglan á Austurlandi er þjónustustofnun á sviði öryggis- og löggæslu, sem hefur á að skipa samhenti, vel þjálfuðu og metnaðarfullu lögregluliði, þar sem lipurð, jákvæðni og sanngirni eru ríkjandi viðhorf,“ segir í niðurlagi svars hennar, sem einnig var sent öllum starfsmönnum Lögreglunnar á Austurlandi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar