Okkar mistök að Bókatíðindi komu ekki í pósti

Benedikt Kristjánsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda segir að það séu...“alfarið okkar mistök,“ að Bókatíðindi í ár bárust ekki með pósti til landsbyggðarfólks. Hér á Austurlandi hefur fólk þannig þurft að sækja Bókatíðindin á N1 bensínstöðvar.


„Þegar ég hafði samband í ár við Íslandspóst um dreifingu á Bókatíðindum var mér tjáð að Íslandspóstur hefði ekki lengur heimild til þess að bera út fjölpóst og því miður lauk ég símtalinu þar,“ segir Benedikt. „Það kom í ljós síðar að Íslandspóstur hefur heimild til að bera út fjölpóst á landsbyggðinni en ekki í höfuðborginni eða á Akureyri.“

Benedikt segir að á næsta ári verða þessi mistök ekki gerð. Hinsvegar sé spurning um hvort Bókatíðindi verði prentuð þá. „Við erum að velta því fyrir okkur að gefa þau eingöngu út á netinu.“

Hrópleg mismunun

Það var Helgi Hallgrímsson rithöfundur sem vakti máls á þessu í grein á Austurfrétt. Þar bendir hann á að Póstdreifing og N1 sjái nú um að koma Bókatíðindum til þeirra sem búa út á landi.

„Þannig var landsbyggðarfólki hróplega mismunað af bókaútgefendum, því að N1 „dreifir“ engu, og hefur aldrei gert. Það er bensínstöð, víðast með sjálfsala, aðeins með þjónustu á fáeinum stöðum utan höfuðborgarsvæðis. Þó margir eigi leið þangað eru það fyrst og fremst bíleigendur. Gamalt fólk kemur þar sjaldan, allra síst nú í „Kóvítinu“, einmitt það fólk sem mest kaupir af bókum, og margir vita ekki að Bókatíðindin fáist þar. Bókabúðir eru orðnar mjög fáar á dreifbýlinu, t.d. er engin hér austanlands, því erum við háðari Bókatíðindum en þéttbýlingar með bókakaup.“

Benedikt segir að reynslan af Póstdreifingu sé vægast sagt ömurleg og þeir muni ekki nýta sér þá þjónustu að nýju.
„Þetta er eins og með annað hérlendis að einkaframtakið má græða þegar það getur eins og að bera út póst á fjölmennum stöðum en hið opinbera á að borga brúsann þegar tap er á rekstri eins og með póstdreifingu á landsbyggðinni,“ segir hann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar