Ný skriða við Búðará í morgun

Ný skriða féll innan við Búðará á Seyðisfirði, á svipuðum slóðum og stór aurskriða kom niður um klukkan þrjú í gær. Þeirri umferð sem leyfð verður um bæinn í dag verður stýrt en enn er verið að meta aðstæður.

Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra kemur fram að í morgun hafi fallið skriða innan við Búðará snemma í morgun. Ekki er talið að hún hafi valdið miklum skemmdum en hún gefur vísbendingu um að enn sé óstöðugleiki í jarðlögum.

Í tilkynningu segir að minnst ellefu hús hafi skemmst í skriðuföllunum í gær. Frekara tjón verður metið í dag.

Ákveðið hefur verið að óheft umferð um Seyðisfjörð verði óheimili í dag. Dagurinn verður nýttur til að meta umfang skriðufalla síðustu daga auk frekari hættu á skriðuföllum. Auk þess þarf að meta umfang tjóns og stöðu mikilvægra innviða á Seyðisfirði. Það verður gert undir eftirliti lögreglu með hjálp björgunarsveita.

Horft inn Seyðisfjörð í morgun. Mynd: Ríkislögreglustjóri


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar