Neita að skilgreina Véltæknihúsið sem safnahús

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs hefur hafnað erindi Véltæknisafnsins um afslátt af fasteignagjöldum undir starfsemi safnsins. Starfsemin er ekki talin falla undir skilgreiningu laga um safnahús.


Eigendur Véltækni ehf. sóttu nýverið um afslátt af fasteignagjöldum félagsins vegna fasteignarinnar Lyngáss 6-8 á Egilsstöðum þar sem það hefur verið með starfsemi.

Í erindinu er Véltæknisafninu lýst sem minjasafni þar sem bílar og tæki „af ýmsum toga séu varðveitt.“

Utandyra sé safnið opið fyrir þá gesti sem vilji skoða án endurgjalds en inni í því séu minni og viðkvæmari hlutir geymdir. Allri starfsemi Véltækni ehf. hafi raunar lokið fyrir tveimur árum og nánast engin starfsemi verið þar síðustu 30 ár. Í dag sé allt húsið nýtt undir Véltæknisafnið sem er ekki rekið í ágóðaskyni.

Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er heimilt að undanþiggja safnahús fasteignagjöldum að því leyti sem þau eru ekki rekin í ágóðaskyni.

Í bókun bæjarráðs segir að ekki sé litið svo á að Véltæknisafnið falli undir skilgreininguna á safnahúsum. Þá séu ekki til neinar aðrar forsendur eða heimildir til að veita afslátt af fasteignagjöldum.

Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaráðs safna er safn skilgreint sem varanleg stofnun sem opin er almenningi en ekki rekin í hagnaðarskyni heldur í þágu þjóðfélags og framþróunar.

Safn er einnig skilgreint sem stofnun sem safnar áþreifanlegum heimildum um manninn og umhverfi hans, verndar þær, rannsakar þær, miðlar upplýsingum um þær og hefur þær til sýnis, svo þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar