Minjastofnun óskar upplýsinga um áformað niðurrif rauðu bragganna

Minjastofnun hefur óskað eftir upplýsingum um sögu rauðu bragganna sem áður hýstu harðfiskverkun Sporðs á Eskifirði. Sveitarfélagið keypti þá fyrir um ári til að rífa þá. Hópur Eskfirðinga safnar undirskriftum gegn þeim áformum.

„Okkur bárust ábendingar um að til stæði að rífa þessi hús og óskuðum eftir nánari upplýsingum frá sveitarfélaginu,“ segir Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri hjá Minjastofnun.

Braggarnir við Strandgötu 98, sem áður hýstu harðfiskverkun Sporðs, eru byggðir í kringum 1950. Rekstur Sporðs var seldur til Borgarfjarðar og Fjarðabyggð keypti byggingarnar fyrir um ári með niðurrif í huga.

Eydís Ásbjörnsdóttir, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, sagði í grein hér á Austurfrétt um helgina að ástæðurnar fyrir niðurrifinu væru tvíþættar. Annars vegar stendur til að byggja upp safnasvæði í útkaupstað Eskifjarðar og munu braggarnir víkja fyrir því. Hins vegar umferðaröryggi því húsin standa út í aðalgötuna og þrengja að henni.

Áformin eru hins vegar umdeild og hefur hópur Eskfirðinga, Velunnarar rauðu bragganna, hrundið af stað undirskriftasöfnun fyrir vernd þeirra. Í áskorun þeirra segir að húsin séu minjar, mikilvægur hluti af sögu svæðisins og trúlega eitt þekktasta vörumerki bæjarfélagsins. Þeir vilja að sveitarfélagið finni húsunum nýja staðsetningu, þau verði annað hvort færð aðeins neðar eða annað í bænum. Tæplega 340 manns hafa undirritað yfirlýsinguna.

Hluti af merkilegri heildarmynd

Samkvæmt lögum eru öll hús og mannvirki 100 ára og eldri friðuð. Minjastofnun þarf að veita samþykki eigi að rífa eða gera á þeim stórvægilegar breytingar. Þá þarf að fá umsögn stofnunarinnar standi til að fara í breytingar á húsum sem byggð eru 1925 eða fyrr.

Rauðu braggarnir falla ekki undir þessa lögsögu en stofnunin vill kanna hlut þeirra í heildarmynd Eskifjarðar. „Þótt Minjastofnun hafi ekki beint lögsögu í málinu hvílir á henni rannsóknarskylda samkvæmt stjórnsýslulögum. Við vildum sinna henni og kanna hvort húsin hefðu slíkt varðveislugildi að það ætti að grípa til aðgerða.

Þótt húsin séu ekki svo gömul standa þau á viðkvæmu svæði, innan um gömul sjóhús, sem mynda einstakan hluta af bænum,“ segir Pétur.

Upplýsingarnar sem stofnunin viðar að sér eru meðal annars um aldur og sögu mannvirkjanna. Hún getur síðan sent frá sér álit til að hafa áhrif á ákvarðanir eigenda eða lagt til friðlýsingu telji hún mikið húfi.

Pétur segir að málið verði tekið fyrir hjá stofnuninni í dag eða á morgun og skýrist því fljótlega. Hjá Fjarðabyggð fengust þær upplýsingar að niðurrif húsanna væri ekki hafið en nánast allt verið klárt í það þegar Minjastofnun kallaði eftir upplýsingunum. Nú sé beðið frekari svara þaðan.

Mynd: Velunnarar rauðu húsanna

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.