Mikil gleði á Breiðdalsvík

Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps, segir mikla ánægju þar með úrslit sameiningarkosningar hreppsins og Fjarðabyggðar. Yfir 85% sögðu já í hvoru sveitarfélagi.

„Við sátum hérna 20 manns og fylgdumst með talningunni og biðum svo eftir lokatölunum í Fjarðabyggð. Það ríkir mikil gleði hér,“ segir Hákon.

Hann segir tölurnar í Breiðdal, þar sem 85% samþykktu sameininguna, ekki endilega hafa komið á óvart, tilfinningin hafi verið sú að afgerandi meirihluti styddi sameininguna. Kjörsóknin, tæp 65%, hafi jafnvel verið meiri en búist var við.

Hann segir afgerandi niðurstöður í báðum sveitarfélögunum gott veganesti fyrir framhaldið. „Við vissum minna hvernig úrslitin yrðu í Fjarðabyggð, eftir kynningarfundina höfðum við þó tilfinningu um mikinn meirihluta með sameiningu.

Ég er ánægður með að þar skuli einnig hafa verið yfirgnæfandi meirihluti með. Það er gott og sterkt upp á framtíðina að úrslitin séu svona afgerandi.“

Sameiningin gengur í gegn eftir sveitarstjórnarkosningarnar í lok maí en kosið verður í sameinuðu sveitarfélagi sem heita mun Fjarðabyggð.

Hákon lýsir einnig mikilli ánægju með alla vinnu í kringum sameininguna. „Mér finnst framkvæmdin hafa tekist sérstaklega vel, samstarfið við sveitastjórnarráðuneytið tókst vel og það bar hvergi skugga á neitt í starfi sameiningarnefndarinnar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.