Bjarni Ólafsson AK auglýstur til sölu

Síldarvinnslan hefur sett uppsjávarveiðiskiptið Bjarna Ólafsson AK á söluskrá þar sem fá verkefni eru fyrir það. Skipið er í góðu ásigkomulagi, nýkomið úr slipp. Frábærri kolmunnavertíð er að ljúka.

Árið 2003 eignaðist Síldarvinnslan fyrst hlut í útgerðarfélaginu Runólfi Hallfreðssyni á Akranesi, sem gerði Bjarna út. Síldarvinnslan eignaðist loks útgerðina og þar með skipið að fullu árið 2021. Þá um sumarið tók Síldarvinnslan við nýjum Berki NK. Um haustið varð gamli Börkur að Beiti.

Grétar Örn Sigfinnsson, útgerðarstjóri Síldarvinnslunnar, segir að með nýja Berki hafi fyrirtækið átt orðið fjögur uppsjávarveiðiskip. Stefnt hafi verið á að fækka þeim í þrjú og upphaflega staðið til að selja Beiti.

Næg verkefni hafi hins vegar reynst fyrir Börk, Beiti og Barða. Þess vegna hafi verið ákveðið að selja Bjarna, sem er elsta skipið, smíðað árið 1999. Skráðar landanir skipsins bera með sér að fá verkefni hafi verið það síðan í lok fiskveiðiársins 2021/22, utan þess að það var gert út í lok loðnuvertíðarinnar 2023.

Skipið fór í slipp á Akureyri í apríl en kom aftur til Norðfjarðar fyrir tveimur vikum. Grétar segir að þar hafi verið farið yfir allt sem þurfti að gera fyrir skipið og meira til, þannig það sé tilbúið í verkefni. Skipið er skráð á söluskrá Atlantic Shipping. Þar er ásett verð 83 milljónir norskra króna eða um 1,067 milljarðar íslenskra.

Grétar segir að ekki standi til að fá annað uppsjávarveiðiskip í stað Bjarna. Síldarvinnslan hefur um nokkurn tíma boðað endurnýjun á bolfiskveiðiskipum félagsins. Grétar segir að þau séu orðin gömul og því þörf á að endurnýja þau á næstu árum en ekkert sé ákveðið í þeim efnum.

Kolmunnaveiðum er annars að ljúka hjá Síldarvinnslunni. Verið er að landa úr Berki á Seyðisfirði og Barða í Neskaupstað. Beitir er á veiðum en vertíðinni lýkur þegar hann hefur landað. „Það hefur verið mikill kraftur í veiðinni eftir páska og hvorki skip né bræðslur stoppað. Við höfum ekki séð svona aflabrögð í háa herrans tíð. Skipin stoppa bara í 2-3 sólarhringa á miðunum,“ segir Grétar en skipin hafa verið á veiðum í færeysku lögsögunni og suður úr henni.

Mynd: Síldarvinnslan/Smári Geirsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar