Síldarvinnslan hugar að næsta nýja skipi

Stjórn Síldarvinnslunnar hefur hafið undirbúning að endurnýjun bolfiskskipa fyrirtækisins. Eins stendur til að auka afköst landvinnslunnar verulega.


Frá þessu skýrði forstjórinn Gunnþór Ingvason, þegar tekið var á móti nýjum Beiti í Norðfjarðarhöfn um jólin. Á síðustu sex árum hefur Síldarvinnslan skipt tíu sinnum um skip.

Gunnþór sagði endurnýjun uppsjávarveiðiflotans lokið með tilkomu Beitis en bolfisktogararnir væru næstir á dagskrá. Fyrirtækið hefur keypt bolfiskkvóta síðustu ár og er hann kominn úr 5000 tonnum í 19 þúsund.

„Stjórn félagsins er byrjuð að vinna að þarfagreiningu fyrir ný bolfiskveiðiskip. Ég lofa engu með tímasetningar en þau verða endurnýjuð mjög fljótlega,“ sagði Gunnþór.

„Það er ekki sami markaður fyrir notuð bolfiskveiðiskip og uppsjávarveiðiskip þannig bolfiskskipin þarf að smíða ný. Það tekur um 18-20 mánuð frá undirritun samnings að byggja nýtt skip.“

Beitir lá við hlið Barkar sem Síldarvinnslan keypti frá Noregi í fyrra. Skipin eru meðal þeirra fremstu í íslenska flotanum og efla verulega skipakost fyrirtækisins. Um leið þarf að huga að landvinnslunni.

„Við erum hvergi nærri hætt í landi. Þetta eltir hvert annað. Við stefnum á að stækka vinnsluna úr 450 tonnum í 900 tonn til að þjóna þessum skipum. Við þurfum að vinna meira á skemmri tíma til tryggja gæði og verða við kröfum markaðarins.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.