Merki um samdrátt í nýbyggingum á fyrstu stigunum

Eftirspurn er eftir íbúðum um nær allt land og að jafnaði bítast fjórir einstaklingar um hverja íbúð sem sett er á sölu. Vísbendingar eru um að á næstunni hægi mjög á nýbyggingum. Sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins segir að koma þurfi á virku samtali milli byggingaverktaka og starfsmanna hins opinbera til að liðka fyrir framkvæmdum.

„Við sjáum merki um samdrátt á fyrstu stigunum. Velta arkitekta og verkfræðinga er að minnka. Þeir finna fyrstir fyrir því þegar hægist á. Við heyrum á félagsmönnum okkur að þeir ætli að byggjast 70% færri íbúðir. Talning Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á nýframkvæmdum endurspeglar það.“

Þetta sagði Friðrik Ágúst Ólafsson, forstöðumaður byggingasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, á opnum fundi um húsnæðismál og nýsköpun í atvinnulífi sem haldinn var á Egilsstöðum nýverið.

Hann sagði skýringuna að leita í auknum kostnaði, sérstaklega hærri vaxtakostnaði. Á stuttum tíma hafi kostnaður meðalstórrar íbúðar á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 7 milljónir. „Við heyrum að verktakar eru að færa sig úr íbúðum yfir á útboðsmarkaðinn, sem er ekki gott.“ Hann sagði íbúðaskort ríkja um nánast allt land og að meðaltali berjist fjórir kaupendur um hverja íbúð sem sé föl til kaups.

Efla þarf samtal verktaka og embættismanna


Friðrik fór um Austurland í sumar og spurði þá aðildarfélög út í stöðuna og hvað gera þyrfti að gera betur. Hann sagði verktaka kvarta yfir að afgreiðslur á umsóknum þeirra um leyfi tækju langan tíma. Í einhverjum tilfellum væri þeim hafnað án viðhlítandi skýringa. Skilmálar deiliskipulags þyki stundum oft of strangir og reglur túlkaðar misjafnlega milli sveitarfélaga.

Friðrik sagði á móti að verktakarnir hefðu oft samúð með byggingafulltrúum sem væru með undirmannaðar skrifstofur. Skipulagsáætlanir sveitarfélaga skapi fyrirsjáanleika og tilraunir með þróunarreiti hafi reynst vel. Þá komi ánægjulega á óvart að byggingaiðnaðurinn vilji eftirlit frá leyfisveitendum. Friðrik sagði samstarf lykilinn að árangri og koma þyrfti á reglulegu samtali milli embættismanna og byggingaaðila.

Verktakarnir verði líka að horfa í eigin barm. Ekki sé hægt að nota embættismenn sem prófarkalesara á hönnunargögn, heldur verði að semja við hönnuði að fullklára sína vinnu fyrir tiltekinn tíma, eins og gert sé við aðra undirverktaka.

Þarf að byggja fyrir atvinnulífið


Friðrik hvatti byggingaaðila til að reyna að máta sig við allar mögulegar lausnir sem eru á markaði. Einhver sveitarfélög hafa stigið það skref að gefa afslátt af gjöldum ef notuð eru vistvænni byggingaefni.

„Það þarf að byggja til að hægt sé að efla atvinnulífið. Þið þekkið það hér að fyrirtæki eru í vandræðum með húsnæði fyrir sitt starfsfólk. Það er ótækt að taka megnið af hótelrýminu undir starfsfólk,“ sagði Friðrik meðal annars. Á fundinum var kynnt vinna við gátt fyrir stafræn byggingarleyfi sem í gangi er hjá HMS.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.