Með ólíkindum að ekki hafi verið sett upp áætlun að tryggja öryggi íbúa á landsbyggðinni

Formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi segir með ólíkindum að ríkið hafi ekki sett af stað áætlun til að tryggja öryggi og heilsu íbúa á landsbyggðinni þegar samþykkt var að loka einni af flugbrautum Reykjavíkurflugvallar.


Í ályktun frá síðasta fundi stjórnar SSA er lýst „gríðarlegum vonbrigðum með þann farveg sem hið opinbera hefur sett málefni innanlandsflugvallar í Reykjavík í.“

Árið 2013 gerði þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra og Reykjavíkurborg samkomulag sem gerði ráð fyrir lokun norðaustur-/suðvesturbrautar vallarins, sem oft hefur verið nefnd neyðarbraut. Deilur með nýrri ríkisstjórn leiddu til dómsmáls en þær eru á enda eftir að Hæstiréttur staðfesti rétt borgarinnar til að loka brautinni nýverið.

Flugstjórar í sjúkraflugi hafa hvað harðast gagnrýnt lokun brautarinnar og sagt hennar helst þörf í undantekningartilfellum þar sem mikið liggi við. Fleiri hafa tekið undir þessa gagnrýni, meðal annars austfirskar sveitastjórnir.

Sigrún Blöndal, formaður SSA, segir að ríkisvaldinu hafi átt að vera ljóst strax við undirritun samkomulagsins hvert stefndi.

„Það verður að teljast með ólíkindum að við gerð samkomulagsins 2013 hafi hið opinbera, í samstarfi við landshlutana og Reykjavíkurborg, ekki sett af stað vinnu við að móta og hrinda í framkvæmd áætlun sem tryggir öryggi og heilsu íbúa á landsbyggðunum sem og varanlega lausn á miðstöð innanlandsflugs,“ segir Sigrún Blöndal, formaður SSA.

Fyrst loka eigi brautinni verði aðrar lausnir að koma til, svo sem að styrkja starf Heilbrigðisstofnunar Austurlands og koma norðaustur-/suðvesturbraut í Keflavík í nothæft ástand þannig að þangað megi beina sjúkraflugi þar til varanleg lausn á miðstöð innanlandsflugs liggur fyrir.

„Sú lausn verður að taka mið af þeirri staðreynd að stór hluti landsmanna þarf að sækja nauðsynlega þjónustu til höfuðborgarinnar með flugsamgöngum, ekki síst heilbrigðisþjónustu. Huga verður að uppbyggingu samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll til að tryggja samþættingu allra samgangna innanlands.

Þá er rétt að ítreka mikilvægi innanlandsflugs fyrir landshlutann. Þrátt fyrir það hefur ekkert áunnist í því að skilgreina það sem almenningssamgöngur eða í endurskoðun á verðlagningu sem er þess eðlis að hún stendur eðlilegum ferðalögum íbúa landshlutans og gesta fyrir þrifum og rýrir þar með búsetukosti Austurlands.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar