Lýsa yfir áhyggjum af stöðu sauðfjárbænda

Bæjarráð Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs hafa skorað á ríkisstjórn Íslands að bregðast við stöðu sauðfjárbænda. Hætta sé á byggðaröskun vegna lækkunar á afurðaverði til bænda.


Í báðum ályktunum er skorað á stjórnvöld, forustu bænda, fulltrúa afurðastöðva, verslana og annarra sem hlut eiga að máli að vinna saman að lausnum.

Í bókun Fljótsdalshéraðs segir að miðað við núverandi stöðu sé hætta á alvarlegri byggðaröskum sem kæmi þungt niður á samfélögum til sveita og þeim sveitarfélögum sem byggi að miklu leyti á landbúnaði.

Vinna verði að því að treysta rekstrarskilyrði sauðfjárræktar til framtíðar, einkum á þeim svæðum sem landgæðalega til sauðfjárbúskapar. Þá verði að vinna markvisst að því að styrkja undirstöður til fjölbreyttara atvinnulífs í dreifðum byggðum landsins.

Landbúnaðarráðherra kynnti í gær tillögur vegna erfiðleika í sauðfjárrækt. Stærstu aðgerðirnar snúast annars vegar um að draga úr kjaraskerðingu, hins vegar til að draga úr framleiðslu þannig að bændur fækki fé.

Bændur hafa kallað eftir að ríkið grípi inn í fyrirsjáanlegan birgðabanda en í tillögunum frá í gær er aðeins gert ráð fyrir úttekt á birgðunum til að fá nánari upplýsingar um stöðu.

Talsmenn bænda og stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt aðgerðirnar fyrir að ganga ekki nógu langt. Á fundi sauðfjárbænda í síðustu viku hét Þórunn Egilsdóttir, sauðfjárbóndi á Hauksstöðum í Vopnafirði og þingmaður Framsóknarflokksins, að hreyft yrði við málinu þegar Alþingi kemur saman á ný ef tillögurnar leiddu ekki til lausna.

„Hvað er að því að ríkið kaupi upp birgðirnar til að koma greininni niður á ákveðinn punkt. Það væri ekki einsdæmi.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar