Lineik Anna gefur kost á sér í fyrsta sætið: Mikilvægt að flokksmenn hafi val

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður frá Fáskrúðsfirði, hefur bæst í hóp þeirra sem gefa kost á sér í fyrsta sætið á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi þingkosningum.

 

"Ég tel afar mikilvægt að flokksmenn hafi valkosti í fyrsta sætið, fyrst komin eru fleiri en eitt framboð," sagði hún í samtali við Austurfrétt.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, skipaði sætið í síðustu kosningum og hefur gefið kost á sér áfram en í vikunni bauð Höskuldur Þórhallsson þingmaður sig fram gegn honum og lýsti um leið yfir stuðningi við Sigurð Inga Jóhannsson til formennski í Framsóknarflokknum.

Aðspurð segist Líneik Anna finna fyrir því að flokksmenn vilji fleiri kosti í fyrsta sætið en bætir við að hún geri sér ekki grein fyrir hve stór hópurinn sé. Aðspurð um stuðningsyfirlýsingu Höskuldar við Sigurð Inga svarar hún: "Ég styð núverandi formann og vinn með honum sem formanni."

Í framboðstilkynningu segist Líneik gefa kost á sér í 1. - 3. sætið. Líneik er fædd 1964 og uppalin á Fljótsdalshéraði en hefur búið á höfuðborgarsvæðinu, á Vesturlandi og býr nú í Fjarðabyggð. Hún er líffræðingur með viðbótarmenntun í kennslufræði og hefur lengst af starfað við fræðslumál, hún hefur setið á þingi frá 2013. Þá hefur hún unnið að sveitarstjórnarmálum og öðrum félagsstörfum.

Þar segist hún enn fremur leggja áherslu á að vinna með hagsmuni allra Íslendinga að leiðarljósi og sé tilbúin að hlusta á fjölbreytt sjónarmið. Það eigi bæði við um minni mál sem stærri.


"Ég lít þannig á að stærstu og brýnustu málin séu efnahagur ríkisins, einstaklinga og fyrirtækja. Jafnrétti og jafnræði íbúa landsins er afar mikilvægt og þar eru samgöngur í víðasta skilningi lykilþáttur. Hófsama nýtingu náttúruauðlinda tel ég grundvöll íslensks efnahagslífs, og samspil manns og náttúru vera viðvarandi viðfangsefni stjórnmálanna. Mín sérstöku baráttumál eru gott aðgengi að menntun, bættar samgöngur, jafnrétti í víðum skilningi og umhverfismál.

Ég er tilbúin að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að stuðla að liðsheild og góðum vinnuanda í kringum þau verkefni sem ég sinni, hvort sem er innan flokksins, í nefndum þingsins eða á öðrum vetvangi.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.