Leita að varanlegri lausn til að vernda vatnsból Stöðvarfjarðar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. ágú 2025 16:32 • Uppfært 06. ágú 2025 17:05
Á vegum Fjarðabyggðar hefur að undanförnu verið kannað hvernig til framtíðar sé hægt að koma í veg fyrir mengun í vatnsbóli Stöðfirðinga, sem kemur upp reglulega við ákveðnar aðstæður. Verklag um tilkynningar verður yfirfarið.
Samkvæmt frumniðurstöðum sýna, sem tekin voru í gær, er vatnið á Stöðvarfirði aftur orðið hreint. Íbúar geta þar með hætt að sjóða vatnið fyrir notkun. Þau tilmæli hafa verið í gildi í viku.
Sólarhringur frá tilkynningu til sveitarfélagsins þar til íbúar fengu aðvörun
Þriðjudaginn 22. júlí var sýni tekið úr neysluvatni á Stöðvarfirði. Það var hluti af reglubundnu eftirliti. Sveitarfélagið fékk niðurstöðurnar að morgni mánudagsins 28. júlí. Þær sýndu að E. coli mengun í vatninu var yfir mörkum.
Samkvæmt upplýsingum frá Fjarðabyggð var strax gripið til aðgerða, sem felast helst í útskolun. Hins vegar skoluðust boð til innanhúss þannig að tilkynning til íbúa fór ekki út fyrr en tæpum sólarhring síðar, eftir ítrekun frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands (HAUST). Hún var birt á heimasíðu Fjarðabyggðar, samfélagsmiðlum sveitarfélagsins og íbúasíðu Stöðvarfjarðar.
Sýni voru tekin aftur á nokkrum stöðum á Stöðvarfirði mánudaginn 28. júlí og miðvikudaginn 30. júlí. Niðurstöður þeirra lágu fyrir á föstudag og sýndu að enn var mengun til staðar en hún fór hverfandi. Sem fyrr segir sýndi sýni frá í gær að vatnið væri orðið hreint.
Notuðu þær boðleiðir sem virkað hafa til þessa
Íbúar á Stöðvarfirði hafa gagnrýnt upplýsingagjöf Fjarðabyggðar. Einhverjir hafa sagt að þeir hafi ekki vitað af menguninni fyrr en á föstudag, þegar Austurfrétt birti frétt um málið. Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, segir að hjá sveitarfélaginu hafi verið farið í að rekja feril málsins, bæði samskiptin við HAUST og íbúa.
„Það er röð óheppilegra atvika sem gerir það að verkum að tilkynningin fer ekki út frá okkur fyrr en á þriðjudagsmorgni, sólarhring eftir tilkynningu HAUST. Við funduðum með HAUST í morgun og vorum að fara yfir þessa ferla. Þessar aðferðir, að setja á heimasíðu, samfélagsmiðla og íbúasíðu, hafa virkað til þessa. Við höfum notað SMS í neyðartilfellum. Við notuðum það á föstudag til að vera viss um að allir fengju boð. Þannig það er mögulegt að bæta því við. Við förum yfir allar úrbætur sem geta komið í veg fyrir að svona gerist aftur.“
Íbúar hafa lýst því að þeir hafi fundið fyrir ónotum í maga síðustu daga. Jóna segir að beðið sé eftir upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Hins vegar hafi ekki komið neinar tilkynningar, hvorki frá HSA né íbúum, áður en sveitarfélagið sjálft greindi frá menguninni.
Líklegasta lausnin að geisla vatnið
Til framtíðar er hins vegar mikilvægast að reyna að koma í veg fyrir mengun í kerfinu á Stöðvarfirði. Hún hefur reglulega komið upp, ýmist eftir þurrka eins og hafa verið í júlí, eða eftir stórrigningar. Eftir óveðrið í febrúar var til dæmis óttast að mengun hefði komist inn í kerfið og voru þá tekin sýni sem reyndust í lagi.
Lengi voru sömu vandamál á Breiðdalsvík. Þau eru hins vegar úr sögunni eftir að geislunartæki var komið upp þar. Uppsetning þess er einföldust þegar vatni er safnað saman í einn tank og dreift þaðan út.
Þannig er staðan ekki á Stöðvarfirði. Þar er enginn miðlægur tankur, heldur í fyrsta lagi nokkrir brunnar dreifðir uppi í fjallinu og vatnið skilar sér niður í bæinn á mismunandi stöðum. „Þetta getur verið spurning um að sameina vatnslagnir og fækka þeim eða kortleggja sýnatökustaðina betur til að sjá hvort ákveðnir hlutar kerfisins séu viðkvæmari en aðrir og finna hvaðan vatnið í þá kemur. Eins er minna gegnumstreymi í kerfum í minni samfélögum sem gerir þau viðkvæmari. Við erum að skoða ýmsar útfærslur og finna hvað virkar í þessu landslagi,“ segir Jóna Árný.
Hún vonast eftir að fljótlega liggi fyrir tillögur um hvað hægt sé að gera. „Við höfum verið að vinna í þessu í sumar. Við viljum helst núna í ágúst vera komin með einhverjar hugmyndir um það hvaða leiðir sé hægt að fara þannig að hægt sé að hefja aðgerðir. En við viljum að það sé aðgerð sem leiðir til þess að raunverulega verði komist fyrir vandann.“