Neysluvatn á Stöðvarfirði komið í lag
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. ágú 2025 11:29 • Uppfært 06. ágú 2025 11:30
Sýni, sem tekin voru úr neysluvatni á Stöðvarfirði í gær, benda til þess að vatnið þar sé komið í lag. Íbúar eiga því ekki lengur að þurfa að sjóða vatnið.
E. coli mengun greindist í sýnum sem tekin voru 22. júlí síðastliðinn af Heilbrigðiseftirliti Austurlands. Tilkynning um mengunina fór á rangan stað hjá Fjarðabyggð og því leið vika áður en íbúum var tilkynnt um hana. Henni fylgdu tilmæli um að sjóða vatnið.
Íbúar hafa gagnrýnt að upplýsingar frá Fjarðabyggð hafi borist seint og illa. Einhverjir þeirra hafa kvartað yfir ónotum í meltingarvegi á þessum tíma. Austurfrétt hefur óskað eftir upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Austurlands um tilfelli en þær liggja ekki enn fyrir.
Íbúar hafa einnig gagnrýnt að ekki sé gripið til aðgerða við vatnsbólið sjálft, en mengun í neysluvatni Stöðfirðinga eftir annað hvort mikla þurrka eða úrkomu, er ekki ný af nálinni.