Stöðfirðingar verða að bullsjóða allt sitt neysluvatn fram yfir helgina
Vart varð gerlamengunar í vatnsbóli Stöðfirðinga í byrjun vikunnar og hefur íbúum verið ráðlagt að sjóða allt neysluvatn sitt sökum þess síðan þá. Áfram þarf að sjóða því næsta sýnataka er ekki skipulögð fyrr en á þriðjudaginn kemur samkvæmt upplýsingum frá Fjarðabyggð.
Mengunin kom í ljós við reglubundið eftirlit en bæði fundust ekólí- og kólígerlar í vatninu sem merkir að saur frá fólki eða blóðheitum dýrum hefur komist í vatnsbólið.
Ekki er talin þörf á að sjóða vatn til annarra nota eins og baða þar sem viðmiðin eru undir þeim mörkum sem sett eru samkvæmt reglugerð um baðstaði. Þó með þeim fyrirvara að ekki er mælt með að baða ungabörn án ráðstafana. Ekki nægir þó að láta suðuna aðeins koma upp heldur mælir Landlæknir með bullsoðningu alls vatns til neyslu.
Þegar hafa sýni tvívegis verið tekin úr vatnsbóli heimamanna sem stendur hátt yfir bænum en næst verður ekki mælt fyrr en eftir Verslunarmannahelgina á þriðjudag og þær niðurstöður vart ljósar fyrir en degi síðar.