Kviknaði í bíl á Mjóafjarðarheiði

Slökkvilið frá Egilsstöðum og Reyðarfirði voru kölluð á vettvang þegar eldur kom upp á bíl upp Mjóafjarðarheiði frá Fljótsdalshéraði upp úr klukkan hálf sjö í kvöld. Sjö manna fjölskylda sem var í bílnum slapp ómeidd.

Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði Múlaþings var bíllinn að verða kominn upp á Mjóafjarðarheiðina þegar skyndilega dó á honum og eldur blossaði upp úr húddinu. Fjölskyldunni, pari með fimm börn, tókst að koma sér út úr bílnum og slapp ómeidd.

Tveir slökkvibílar frá Egilsstöðum komu á staðinn um 20 mínútum eftir að útkallið barst. Bíll fjölskyldunnar var þá alelda. Síðar kom þriðji brunabíllinn frá Slökkvilið Fjarðarbyggðar. Greiðlega gekk að slökkva eldinn.

Vegurinn lokaðist meðan átt var við bílinn en talsverð umferð var til og frá Mjóafirði. Eldsupptök eru óljós.
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar