Kvennafrí: Launabil karla og kvenna er mest á Austurlandi

Í tilefni af kvennafrídeginum 24. október 2018 býður Alcoa Fjarðaál til samstöðufundar fyrir konur á Austurlandi. Fundurinn verður haldinn í matsal fyrirtækisins í dag milli klukkan 14:55 og 16:00.


„Við ákváðum að bjóða upp á vettvang hér hjá Fjarðaáli þegar okkur varð ljóst, daginn fyrir viðburðinn, að ekki var búið að skipuleggja eða auglýsa einn einasta viðburð tengdan kvennafríinu á Austurlandi. Jafnréttismálin eru okkur mikið hjartans mál og við gátum því ekki horft upp á að austfirskar konur hefðu ekki stað til að koma saman á að þessu tilefni. Hér erum við með rúmgóðan sal svo það var bara ákveðið í miklum flýti að blása til viðburðar,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingarfulltrúi Fjarðaáls, en bætir því við að eftir að viðburður þeirra var auglýstur fylgdu fleiri austfirsk fyrirtæki í kjölfarið.

Dagmar Ýr vitnar í vef kvennafrídagsins. „Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir fimm klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá klukkan 9-17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið klukkan 14:55. Með þessu áframhaldi ná konur ekki sömu launum og karlar fyrr en árið 2047, eftir 29 ár.“

Dagskráin í Alcoa Fjarðaáli
„Konurnar sem hér starfa ætla að hittast í matsalnum klukkan 14:55 og ég reikna með að fljótlega uppúr því byrji konur úr nærsamfélaginu að streyma að líka, eða ég sannarlega vona það því. Við munum hlýða á hugvekjur frá Jónu Árnýju Þórðardóttur framkvæmdastjóra Austurbrúar og Maríu Ósk Kristmundsdóttur framkvæmdastjóra hjá Fjarðaáli. Síðan ætlum við að reyna að streyma beint frá dagskránni á Arnarhóli og taka lagið í lokinn. Rebekka Egilsdóttir, leiðtogi í steypuskálnum, mun leiða allan hópinn í laginu sem er tileinkað þessum degi og heitir Áfram stelpur. Þá ætla nokkrir framkvæmdastjórar að baka vöfflur.“

Konur á Austurlandi réttsýnar og baráttuglaðar
Dagmar segist hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar hún sá að ekkert var skipulagt í tilefni dagsins á svæðinu frá Mývatnssveit að Selfossi. En hvernig skyldi standa á því?

„Ég get því miður ekki svarað því, en þetta kom mér mjög á óvart því baráttuglaðari og réttsýnni konur en á Austurlandi eru vandfundnar að mínu viti. Kannski hefur þetta hreinlega bara farið svona framhjá okkur. Við erum náttúrulega lengst frá höfuðborginni þar sem skipulag dagsins á sér að mestu stað, það er spurning hvort það spili inní.“

Hvernig telur Dagmar Ýr stöðu kvenna á Austurlandi vera? „Ég held hún mætti vera betri miðað við það sem tölurnar segja okkur. Austurbrú hefur rýnt í jafnréttistölur þessa fjórðungs og það er ljóst að launabil milli kvenna og karla er mest í þessum fjórðungi og það finnst mér afar umhugsunarvert.“

Samstöðufundur verður einnig í Neskaupstað, á Hótel Hildibrand, en hann hefst klukkan 14:55. 

Konur fá 26% afslátt í Tehúsinu á Egilsstöðum í allan dag.  

Konur á Djúpavogi ætla að hittast Við Voginn í dag klukkan 15:00. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar