Kristinn Rúnar stefnir á 2. til 4. sætið á lista Framsóknar

Kristinn Rúnar Tryggvason bóndi á Hóli í Kelduhverfi gefur kost á sér í 2. til 4. sæti í forvali Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi til Alþingiskosninga sem fram fara í haust.

„Ég er 53 ára gamall og hlýði nafninu Rúnar á Hóli. Ég hef staðið fyrir búrekstri síðan 1989 – hefðbundnum búskap og alls konar öðru með eins og ferðaþjónustu, gistingu, hestaleigu, verktakastarfsemi í landbúnaði og skólaakstri svo eitthvað sé nefnt. Ég hef verið virkur í félagsmálum í minni heimabyggð og meira segja fengið að syngja með Karlakórnum Hreim,“ segir Kristinn Rúnar í tilkynningu um framboðið.

„Það sem rekur mig áfram í stjórnmál og áhuga á þeim er fyrst og fremst byggðamál sem auðvitað spanna flesta þætti samfélagsins eins og t.d. atvinnumál, landbúnaður, samgöngur, fjarskipti, tækifæri til menntunar, jafnréttismál og svo framvegis. Það er aðallega byggðaþróunin sem vekur mér ugg og ég hef átt erfitt með að horfa upp á byggðina mína og upplifa þá hnignun sem þar hefur átt sér stað síðustu áratugina.

Jafnrétti til búsetu er lykilatriði og við eigum að hafa kjark til að beita skattkerfinu til að ná árangri. Ég vil leggja mitt af mörkum til að reyna að snúa þessu við því ég trúi að við sem þjóð værum mun fátækari ef byggð í landinu leggst víða af eins og allt stefnir í að óbreyttu.

Þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér íog þætti afar vænt um að fá ykkar stuðning til að fara í þá baráttu og leggja þá mitt af mörkum til að gera landi og þjóð eitthvert gagn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar