Keppast við að verja fjarskiptabúnað

Allt kapp er nú lagt á að verja fjarskiptabúnað sem geymdur er í gamla pósthúsinu á Seyðisfirði. Frárennsliskerfi bæjarins er fullt eftir rigningar síðustu daga.

„Við erum að reyna að dæla í burtu vatni sem umlykur gamla pósthúsið til að verja fjarskiptabúnað sem þar er inni og varaafl fyrir hann,“ segir Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi.

Seyðisfjörður hefur í gegnum tíðina skipt miklu máli fyrir fjarskipti við umheiminn og þar kemur meðal annars einn angi Farice-sæstrengsins á land. Talsvert er því í húfi að verja fjarskiptamiðstöðvar bæjarins.

„Frárennsliskerfið er fullt en hefur undan núna. Áhersla okkar núna er á þetta. Við höfum ekki komist inn í neina kjallara til að skoða híbýli fólks.“

Skriðan sem féll í nótt umlykur einu bensínstöðina á Seyðisfirði og er hún óaðgengileg. „Það skapar okkur töluverð vandræði því dælurnar okkar ganga fyrir bensíni. Við fengum sendingu áðan frá áhaldahúsinu á Egilsstöðum þannig við erum góðir í töluverðan tíma. Samvinnan er góð og það hjálpast allir við að láta þetta ganga.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar