Kærur vegna farsímanotkunar hafa fjórfaldast

Gífurleg aukning hefur orðið á kærum vegna farsímanotkunar í umdæmi Lögreglunnar á Austurlandi á síðustu fimm árum eða um 423%. Milli síðustu tveggja ára var aukningin 152%

Þetta kemur fram í yfirliti lögreglunnar um tölfræði síðasta árs hjá embættinu og birt er á vefsíðu hennar.

Þar kemur einnig fram að slysum fækkaði um 43% miðað við meðalfjölda slysa síðastliðin fimm ár. Slysum fækkaði frá síðasta ári um 17% og hefur slysum fækkað tvö ár í röð, frá 2018 til 2020.Skráðum umferðarlagabrotum fækkaði um 1% miðað við árið 2019. Þeim fjölgar hinsvegar um 29% miðað við meðalfjölda brota síðastliðin fimm ár.

„Stefnt var að fækkun umferðarslysa með auknum sýnileika og afskiptum meðal annars, þar á meðal að leggja aukna áherslu á öryggismál eins og vanrækslu á notkun bílbelta, notkun snjalltækja við akstur og lögbundna skoðun ökutækja,“ segir á vefsíðunni.

Kærum vegna vanrækslu á notkun bílbelta fjölgaði frá árinu 2019 um 80%. Þeim fjölgaði einnig sem meðaltal síðustu fimm ára um sama hlutfall.

Númeraafklippum fjölgaði frá árinu 2019 um 13%. Þeim fækkaði hinsvegar sem meðaltal síðustu fimm ára um 27%.

Skráðum fíkniefnabrotum fjölgaði sem meðaltal áranna 2015 til 2018 en fækkaði um 45% frá árinu 2019. Þeim fækkaði sem meðaltal brota árin 2015 til 2019 um 7%. Fjöldi mála var umtalsverður árið 2019 í samanburði og tengist útihátíðum það ár.

Heimilisofbeldi eykst

Skráðum brotum í tengslum við heimilisofbeldi fjölgaði um 270% frá meðaltali síðustu fimm ára og frá síðasta ári um 136%. Tiltölulega fá brot sem um ræðir og því geta hlutfallstölur verið háar.

Sambærilegar tölur félagsþjónustu sveitarfélaganna Fjarðabyggðar og Múlaþings, hafa hinsvegar ekki farið upp að sama skapi. Má því gera ráð fyrir að nákvæmari skráning þessara mála hjá lögreglu kunni að skýra í það minnsta hluta af fjölguninni.

Unnið er að stefnumörkun lögreglunnar á Austurlandi fyrir árið 2021. Stefnt er að því að kynna hana í byrjun febrúar, að því er segir á vefsíðunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.