Jón Björn verður bæjarstjóri

Jón Björn Hákonarson verður bæjarstjóri Fjarðabyggðar út kjörtímabilið. Þetta var staðfest á fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar í kvöld. Eydís Ásbjörnsdóttir verður forseti bæjarstjórnar.

Jón Björn, sem leiddi Framsóknarflokkinn í síðustu sveitarstjórnarkosningum, hefur verið forseti bæjarstjórnar en lætur af því embætti, sem og formennsku í eina-, skipulags- og umhverfisnefnd og safnanefnd auk varaformennsku í bæjarráði.

Eydís hefur verið formaður bæjarráðs en tekur við bæði sem forseti bæjarstjórnar og formaður eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar. Einar Már Sigurðarson verður 1. varaforseti og Sigurður Ólafsson 2. varaforseti.

Sigurður Ólafsson, sem var í öðru sæti Fjarðalistans fyrir síðustu kosningar, verður formaður bæjarráðs. Pálína Margeirsdóttir, sem var í öðru sæti Framsóknarflokks, tekur sæti Jóns Björns í bæjarráði og verður varaformaður þess.

Skipað verður í safnanefnd á næsta fundi bæjarráðs.

Karl Óttar Pétursson lét í morgun af störfum sem bæjarstjóri. Í tilkynningu sveitarfélagsins í kvöld eru honum þökkum góð störf og gott samstarf í þágu Fjarðabyggðar og óskað velfarnaðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar