Jónína Rós gefur kost á sér í annað sætið hjá Samfylkingunni

jonina_ros_gudmundsdottir_sept_2012.jpg
Jónína Rós Guðmundsdóttir, alþingismaður, býður sig fram í annað sætið á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi í prófkjöri flokksins í byrjun nóvember. Jónína settist á þing 2009 en hún var í þriðja sæti listans í þeim kosningum.

„Ég hef átt sæti á Alþingi frá 2009 og öðlast við það fjölþætta þekkingu og reynslu bæði af störfum mínum í ýmsum nefndum innan þings og utan, á ferðum mínum um víðfeðmt kjördæmi og til Evrópu vegna starfa í þingmannanefnd EFTA og EES,“ segir í tilkynningu frá Jónínu.

„Ég hef lagt mesta áherslu á velferðarmál, ár mín á þingi,enda verið varaformaður heilbrigðis – og velferðarnefndar um skeið. En ég hef viljað afla mér víðtækari þekkingar og reynslu með því að starfa tímabundið í stjórnskipunar – og eftirlitsnefnd, allsherjar – og menntamálanefnd, iðnaðarnefnd og nú síðast tók ég sæti 2. varaformanns í atvinnuveganefnd. Þá er ég varaformaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál og á sæti í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.

Ég hef unnið markvisst í þágu fatlaðs fólks með formennsku í samráðsnefnd um yfirflutning á málaflokknum frá ríki til sveitafélaga og vinnu við framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þá sit ég í starfshópi velferðarráðherra um endurskoðun á lögum um almannatryggingar.

Þessi ár hafa veitt mér innsýn í fjölbreytt störf löggjafasamkomunnar og hvernig nýta má þau í þágu fólks á landinu öllu. Fyrri reynsla mín sem íbúi og sveitarstjórnarkona á landsbyggðinni, bætist við þingreynsluna og auðveldar mér að vinna áfram að gerð trausts ramma um efnahag, umhverfi og félagslegar aðstæður samfélaga, fyrirtækja, fjölskyldna og einstaklinga um allt land, í anda jafnaðarstefnunnar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.