Jarðir á Héraði í erlendri eigu

Tveir Danir, sem auðgast hafa á matvælaframleiðslu, eiga saman þrjár jarðir á Jökuldal og í Jökulsárhlíð. Eyðibýli í Jökuldalsheið hefur bæst í safn Jim Ratcliffe. Svissneskur bankamaður keypti nýverið jörð í Fljótsdal, samkvæmt samantekt sem vikublaðið Austurglugginn birtir í dag.

Fréttir af eign Dananna á jörðunum Sleðbrjóti og Breiðumörk í Jökulsárhlíð og Gili á Jökuldal eru ekki nýjar en færri kunna deili á þeim.

Danirnir heita Mogens Nielsen og Birger Brix. Auður Mogens byggir á fjölskyldufyrirtækinu Dragsbæk sem lýsa má sem alhliða matvælafyrirtæki og gerir út frá Thistad á norðvestur Jótlandi. Fyrirtækið á hlut í fjölda matvælafyrirtækja sem Íslendingar þekkja, til dæmis Kjarnavörum.

Mogens á helmingshlut í jörðunum í gegnum eignarhaldsfélag sitt Magma. Í gegnum það á hann einnig um fjórðungshlut í Veiðiþjónustunni Strengjum sem selur veiðileyfi í Jökulsá á Dal og Breiðdalsá.

Birger lét í vor af starfi forstjóra Paalsgaard eftir 26 ára starf. Paalsgard er alþjóðlegt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu ýruefna, sem notuð eru þegar blanda þarf saman vatni og olíu við gerð matvæla.

Tæpt ár er síðan Svisslendingurinn David Jakob Blumer keypti jörðina Arnaldsstaði í Fljótsdal. Blumer er einn af yfirmönnum bandaríska fjárfestingafyrirtækisins Blackrock en áður þótt hann talin ein af rísandi stjörnum svissnesks bankaheims þar sem hann starfaði fyrir Credit Suisse.

Þá leiðir úttekt Austurgluggans í ljós að Jim Ratcliffe, ríkasti maður Bretlandseyja sem undanfarin ár hefur safnað að sér jörðum í Vopnafirði auk þess að eiga Grímsstaði á Fjöllum, á Háreksstaði í Jökuldalsheiði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.