Jarðir á Héraði í erlendri eigu

Tveir Danir, sem auðgast hafa á matvælaframleiðslu, eiga saman þrjár jarðir á Jökuldal og í Jökulsárhlíð. Eyðibýli í Jökuldalsheið hefur bæst í safn Jim Ratcliffe. Svissneskur bankamaður keypti nýverið jörð í Fljótsdal, samkvæmt samantekt sem vikublaðið Austurglugginn birtir í dag.

Fréttir af eign Dananna á jörðunum Sleðbrjóti og Breiðumörk í Jökulsárhlíð og Gili á Jökuldal eru ekki nýjar en færri kunna deili á þeim.

Danirnir heita Mogens Nielsen og Birger Brix. Auður Mogens byggir á fjölskyldufyrirtækinu Dragsbæk sem lýsa má sem alhliða matvælafyrirtæki og gerir út frá Thistad á norðvestur Jótlandi. Fyrirtækið á hlut í fjölda matvælafyrirtækja sem Íslendingar þekkja, til dæmis Kjarnavörum.

Mogens á helmingshlut í jörðunum í gegnum eignarhaldsfélag sitt Magma. Í gegnum það á hann einnig um fjórðungshlut í Veiðiþjónustunni Strengjum sem selur veiðileyfi í Jökulsá á Dal og Breiðdalsá.

Birger lét í vor af starfi forstjóra Paalsgaard eftir 26 ára starf. Paalsgard er alþjóðlegt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu ýruefna, sem notuð eru þegar blanda þarf saman vatni og olíu við gerð matvæla.

Tæpt ár er síðan Svisslendingurinn David Jakob Blumer keypti jörðina Arnaldsstaði í Fljótsdal. Blumer er einn af yfirmönnum bandaríska fjárfestingafyrirtækisins Blackrock en áður þótt hann talin ein af rísandi stjörnum svissnesks bankaheims þar sem hann starfaði fyrir Credit Suisse.

Þá leiðir úttekt Austurgluggans í ljós að Jim Ratcliffe, ríkasti maður Bretlandseyja sem undanfarin ár hefur safnað að sér jörðum í Vopnafirði auk þess að eiga Grímsstaði á Fjöllum, á Háreksstaði í Jökuldalsheiði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar