Jarðfræðingar hefja gulleit á Vopnafirði: Algjörar frumrannsóknir

Fjórir jarðfræðingar eru væntanlegir til Vopnafjarðar um helgina til að kanna jarðfræði svæðisins fyrir frekar gullleit og jafnvel gullvinnslu. Framkvæmdastjóri Iceland Resources segir um algjöra frumrannsókn að ræða sem óvíst sé hver stefni í framhaldinu.


Þetta er fyrsta leyfið sem fyrirtækið fær en það hefur sótt um leyfi til rannsókna á átta stöðum á landinu. Orkustofnun hefur veitt leyfi til rannsókna á 598,5 ferkílómetra svæði í Vopnafirði sem gildir til 15. júlí 2021.

„Við erum búin að eyrnamerkja sex svæði innan þessa svæðis sem við viljum skoða nánar,“ segir Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Iceland Recources.

Fjórir jarðfræðingar koma um helgina og verða 1-2 vikur eftir hversu vel gengur. Vilhjálmur segir ekki tryggt að þeir nái að skoða öll svæðin nú og því verði komið aftur næsta sumar.

„Gerum ráð fyrir að finna eitthvað“

Fyrirtækið byggir á rannsóknum Melmis frá árinu 1997 um möguleg gullsvæði á Íslandi en fyrstu rannsóknir fyrirtækisins í Vopnafirði voru á árunum 1991-1993. „Þá voru tekin sýni í árfarvegum þar sem greint var aukið magn af gulli, kopar og sinki. Við viljum leita hvaðan það kann að koma.

Við gerum ráð fyrir að finna eitthvað. Vísbendingarnar benda til að það sé eitthvað þarna. Svo er spurning hvort við verðum nálægt að finna eitthvað sem réttlætir enn meiri rannsóknir eða boranir.

Við verðum mest uppi í fjöllum að kortleggja jarðfræði svæðisins og spá í hvar við einbeitum okkur mögulega að skoða betur. Það eru engar boranir á döfinni strax nema við verðum mjög heppin. Svo getur verið að við förum bara heim með skottið á milli fótanna.“

Ekkert borað strax

Sem fyrr segir hefur Iceland Resources sótt um leyfi til leitar að gulli og kopar á átta svæðum á Íslandi. Vopnafjörður var meðal þeirra þriggja svæða sem líklegust voru talin til árangurs en hin tvö eru á Reykjanesi og í Þormóðsdal.

Rannsóknir á síðastnefnda svæðinu eru lengst komnar „árum lengra en í Vopnafirði“ og hefur reyndar verið borað þar af og í tuttugu ár. „Þannig þið sjáið hvaða tíma þetta getur tekið.“

Iceland Resources hefur einnig sótt um leyfi til gulleitar við Þingmúla í Skriðdal.

Meira gull á minna svæði hérlendis

Náttúruverndarsamtök Austurlands skoruðu í haust á sveitarstjórnarmenn á Austurlandi að „kanna til hlítar og kynna fyrir almenningi hvað felist í fyrirætlunum um gull og koparvinnslu á Austurlandi.“

Víða erlendis hefur gullvinnsla haft alvarleg áhrif á umhverfið. Þegar rótað er í gömlu bergi geta orðið efnahvörf sem mynda eiturefni sem valdið hafa verulegum skaða þar sem þau hafa komist í læki, ár og vötn en einnig eru áhyggjur af áhrifum þeirra á andrúmsloftið. Eins þarf oft mikið berg til að kreista fram lítið magn af fulli.

Vilhjálmur viðurkennir að gullvinnsla sé „í eðli sínu brútal“ en bætir við að hún „þurfi ekki að vera það“. Erlendis þekkist „stórar, subbulegar námur sem taka lítið magn úr miklu bergi. Svona vinnsla á Íslandi eru smáar á litlu svæði með háu gildi gulls.“

Áhrifin af frumrannsóknunum séu engin. „Í leitinni nú eru bara jarðfræðingar á skónum sínum að skoða steina. Það eru ekki meiri áhrif af þeim en fólki að tína ber.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.