Íbúar Fjarðabyggðar saman í vortiltekt næstu tvær vikurnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. maí 2025 19:56 • Uppfært 09. maí 2025 19:59
Á sunnudag hefst tveggja vikna átak sem miðar að fegrun umhverfis í Fjarðabyggð undir yfirskriftinni „Vor í Fjarðabyggð.“ Bæjarstjóri segir íbúa og fyrirtæki hafa tekið þátt af myndarskap síðustu ár.
„Við vorum með átak fyrir Covid sem við endurvöktum í fyrra. Það voru margir sem sýndu góðan vilja og tóku þátt og þess vegna endurtökum við leikin.
Við hvetjum íbúa til að taka þátt í að gera umhverfið aðlaðandi, hreint og fallegt fyrir sumarið,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri í Fjarðabyggðar. Átakið hefst á sunnudag og stendur til laugardagsins 24. maí.
Fjarðabyggð gengur á undan með tiltekt í kringum eigin stofnanir og svæði, til dæmis hafnirnar. Það liðkar líka fyrir, svo sem með sérstakri opnun gámasvæða. „Við sköpum almennt umhverfi þannig að fólk taki til að vor og séum öll saman í því.“
Fyrirtæki leggja einnig sín lóð á vogarskálarnar. „Það fóru mörg af stað í fyrra. Við getum nefnt Eskju sem dæmi sem stóð fyrir hreinsunarátaki í fyrra þar sem starfsfólk fór út,“ segir Jóna.
Þá er einnig fyrirhugaðar gróðursetningar á Reyðarfirði og Stöðvarfirði. „Það er verið að fegra bæina.“