Íbúabyggð ekki talin stafa hætta af snjóflóðum

Tvö stór snjóflóð hafa fallið ofan byggðarinnar á Eskifirði undanfarinn sólarhring. Þau stöðvuðust bæði ofarlega í fjallinu. Fylgst er með fjallshlíðum eystra en ekki er talið að flóð ógni íbúabyggð.

Fyrra flóðið ofan Eskifjarðar féll úr fjallinu Harðskafa, trúlega í nótt. Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands, segir það með stærri flóðum sem fallið hafa á þessum slóðum en stórt flóð féll þar í apríl 1999. Flóðið nú féll niður á flata fyrir neðan brúnina og spýja úr því niður fyrir næstu hlíð en var langt frá íbúabyggð.

Um klukkan 13:40 féll síðan flóð í Hólmgerðarfjalli, ofan leiðarinnar upp í Oddsskarð. Það olli skemmdum á svæði Skotfélags Dreka. Talið er að það hafi verið um 1 km á breidd.

Veðurstofan metur flóðin tvö af stærðinni 3,5 á snjóflóðakvarða. Slík flóð geta valdið nokkrum skemmdum. Hamfaraflóð, líkt og féllu á Vestfirði 1995 og Neskaupstað 1974 eru af stærðinni 5.

Um hádegisbil féll snjóflóð úr gili utan álversins í Reyðarfirði. Nokkrir sjónarvottar sáu það koma niður hlíðina en flóðið stoppaði í um 100 metra hæð.

Þá er vitað um tvö flóð fyrir ofan byggðina í Neskaupstað sem talið er að hafi fallið í fyrradag. Þau staðnæmdust töluvert fyrir ofan varnarmannvirkin þar. Þá munu einhver smærri flóð hafa fallið víðar á svæðinu.

Óvissustigi hefur verið lýst yfir á Austfjörðum því snjórinn sem féll um helgina virðist óstöðugur og von er á nýjum éljabakka í kvöld. Snjórinn virðist mestur í kringum Eskifjörð en minnkar eftir því sem norðar dregur.

Ekki er talið að íbúabyggð stafi nein hætta af og því hefur ekki verið gripið til neinna rýminga enn. Fylgst er þó náið með framvindu mála, til dæmis að ekki séu mannaferðir í kringum atvinnuhúsnæði sem gæti verið á hættusvæði.

Spáð er mildu veðri næstu daga og er útivistarfólk, hvort sem er á skíðum, vélsleðum eða gangandi, varað við óstöðugleika í snjónum í hlíðum.

Myndir: Valbjörn Þorláksson

esk snjoflod 20200125 2 valbjorn

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar