Hús rýmd á Seyðisfirði eftir aurskriður

Rýming húsa við Botnahlíð og Austurveg á Seyðisfirði er hafin eftir að aurskriður féllu á Seyðisfirði á fjórða tímanum. Eitthvert tjón hefur orðið á mannvirkjun en ekki á fólki.

Hvorki er enn ljóst hvert umfang aurflóðanna er né fjöldi þeirra en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi er verið að ná utan um þær.

Einhverjar skriðanna ná niður á húsum, þar af fór ein skriðan niður á Austurveg eftir því sem Austurfrétt kemst næst.

Að sögn lögreglu eru skriðurnar „nokkuð stórar“ og „hlíðin virðist öll vera á fleygiferð“ eftir miklar rigningar síðustu daga. Eitthvert tjón hafi orðið en ekkert stórtjón.

Á vef Veðurstofunnar segir að stór skriða hafi fallið úr Botnabrún utan við Nautnaklauf og nái hún niður á jafnsléttu. Er sú færsla skráð klukkan 15:50.

Rýming húsa í bænum er hafin. Útlit er fyrir að öll íbúðahúsin við Botnahlíð, 15 talsins, verði rýmd auk húsa við Austurveg. Búið er að kalla út björgunarsveitir og opna fjöldahjálparstöð í félagsheimilinu Herðubreið.

Von er á frekari upplýsingum frá almannavörnum á næstu mínútum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar