Skip to main content

Hitinn í fyrsta sinn yfir 26 gráður í maí

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. maí 2025 09:30Uppfært 16. maí 2025 09:33

Hitamet maímánaðar var þríbætt á veðurstöðinni á Egilsstaðaflugvelli. Aldrei áður hefur mælst meira en 26 stiga hiti á landinu.


Eldra hitametið var 25,6°C, sett á Vopnafirði 26. maí árið 1992. Árið 1991 höfðu mælst 25 gráður á Egilsstöðum.

Samkvæmt samantekt frá veðurstofunni Bliku féll hitametið um hálf tvö í gær, þegar hitinn fór í 25,8 gráður. Það var bætt aftur kortér yfir tvö, hitinn fór þá í 26,3°C. Miðað við forsendurnar hefur ekki áður mælst 26 stiga hiti á Íslandi í maí. Metið sem nú stendur var loks sett klukkan 16:15. Hitinn fór þá í 26,6°C.

Hitinn fór einnig í tæpar 25 gráður á Hallormsstað og yfir 20 gráður á veðurstöðvunum á Jökuldal og í Möðrudal. Svalara var út við ströndina en víða ágætlega hlýtt. Einnig var hlýtt til fjalla og ljóst að fleiri staðbundin met hafa fallið.

Ekkert lát er á hlýindunum í bili. Spáð er 20 stiga hita á Egilsstöðum fram á miðvikudag. Eftir það kólnar heldur og von er á úrkomu.

Mynd úr safni.