Helgin: „Við smíðum dagskrána eftir þörfum“

Haustroðinn er árlegur viðburður sem mörgum þykir mjög vænt um og það mætti efla hann og styrkja í allar áttir,“ segir Dagný Erla Ómarsdóttir, verkefnastjóri uppskeru- og markaðshátíðarinnar Haustroða sem fram fer á Seyðisfirði á morgun, laugardag.


„Segja má að með Haustroðanum séum við að kveðja sumarið og fagna haustinu, sem og vetrinum sem er framundan. Þarna gefst gott tækifæri til að hittast og gleðjast saman og sýna hvað við höfum upp á að bjóða, bæði gestum af Austurlandi sem og hvort öðru hér í bænum,“ segir Dagný Erla.

Upphaflega sem kynningarátak
Haustroði var fyrst haldinn 2004 og var það áhugahópur um handverksmarkað sem fór af stað. „Hugmyndin var að hittast og fagna haustinu saman og að þjónustuaðilar á Seyðisfirði og aðrir sýndu öðrum Austfirðingum hvað bærinn hefur upp á að bjóða.

Upphaflega var því viðburðurinn til sem kynningarátak gagnvart nágrannasveitarfélögunum, þá var staðan önnur en hún er í dag varðandi ferðaþjónustu og við vildum bjóða nágrönnum okkar í heimsókn og kynna fyrir þeim fyrirtæki, þjónustu og menningarstarfsemi í bænum.“

Áhersla á matarmarkað í ár
Dagný Erla segir viðburðinn mikið hafa breyst á þessum fjórtán árum. „Þó eru ennþá margir fastir viðburðir sem hafa haldið sér allan tímann, eins og sultukeppnin okkar góða, markaður þar sem fólk selur handverk sitt og kompudótið.

Við smíðum dagskrána eftir þörfum. Eitt árið var fegurðarsamkeppni rótargrænmetis, rútuferð upp á Bjólf og fleira. Í fyrra var bókasafnið opnað formlega á nýjum stað og í ár erum við að leggja áherslu á matarmarkað. Einnig hafa veitingastaðir og verslanir ávallt tekið þátt í viðburðinum og bjóða upp á opnanir og tilboð.“

Blúskvöld á Tehúsinu
Blúskvöld verður á Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld, föstudag. Fram koma Garðar Harðar ásamt Jóhannesi P, sem og Guðgeir Björnsson.

Útgáfuhóf Hafsteins Hafsteinssonar
Listamaðurinn Hafsteinn Hafsteinn fagnar útgáfu bókar sinnar, En við erum vinir, á Hótel Hildibrand á sunnudaginn klukkan 15:00. Þetta er fyrra útgáfuteitið af tveimur, en það seinna verður í Reykjavík. Austfirðingum gefst því hér tækifæri á að tryggja sér eintak af bókinni áður en hún fer í almenna sölu.
Hafsteinn les úr bókinni sem hægt verður að fá áritaða. Allir velkomnir, boðið verður upp á kaffi og kruðerí. Hér má lesa viðtal við Hafstein vegna útkomu bókarinnar.




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.