„Nýja bókin er frekar pólitísk“

Önnur bók listamannsins Hafsteins Hafsteinssonar á Norðfirði kemur út í október og ber nafnið „En við erum vinir“. Um sjálfstætt framhald fyrri bókar hans er að ræða.


Hafsteinn gaf út bókina „Enginn sá hundinn“ árið 2016. Hún var tilnefnd til barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar fyrir best myndskreyttu íslensku barnabókina og til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Hafsteinn Hafsteinsson lærði myndskreytingar við Willem de Kooning Academy í Rotterdam. Báðar eru ækurnar í bundnu máli, en Bjarni Karlsson ljóðbatt sögur Hafsteins.

„Ég reyni alltaf að höfða bæði til barna og fullorðinna og sendi þar með út skilaboð til beggja hópa. Sjálfum leiðast mér barnabækur sem fullorðnir geta ekki einnig tengt við og að mínu mati er jafn mikilvægt að höfða til þess sem les bókina og áheyrandans, barnsins. Barnabók er kjörinn vettvangur fyrir samfélagsgagnrýni og góð hvatning til samræðna milli kynslóða. Í fyrri bókinni voru skilaboðin til fullorðinna að líta upp úr símanum í stað þess að missa af lífinu, meðan boðskapur til barnanna var meðal annars að ekki sé endilega nauðsynlegt að fá viðurkenningu allra í kringum sig til að njóta lífins. Þú þarft oft ekki nema einn vin til að taka þátt í ævintýrum þínum.“

Vináttan til umfjöllunar
Seinni bókin, „En við erum vinir“, fjallar um sömu persónur sem hafa ratað í ótal ævintýri saman en þar er vináttan aðalumfjöllunarefnið. Hinn óskrifaði hluti sögunnar er rammpólitísk gagnrýni sem á vel við tíðarandann.

„Nýja bókin er frekar pólitísk. Skilaboðin til barnanna eru þau að ef þú átt góðan vin og það kemur upp rómur að hann sé leiðinlegur eða einhver reynir að draga þig frá honum, skaltu ekki hlusta á það heldur halda þínu striki og vera áfram sannur vinur. Ég reyni að koma krökkunum í skilning um að ekki er alltaf allt sem sýnist, oft eru aðrir en þú heldur að stjórna bak við tjöldin og í þessari bók eru það rottur. Fullorðna fólkið er hins vegar hvatt til að passa sig á einangrunar- og aðskilnaðarstefnunum sem eru í gangi í Evrópu og Bandaríkjunum þessa dagana. Svona í einfaldaðri mynd og án þess að segja það beint ræðst bókin að útlendingahatri og stefnu Trump og hans líkra, þá helst þráhyggju þeirra um að reisa múra og læsa landamærum.“

Austfirðingar fá að njóta bókarinnar fyrstir
Austfirðingar hafa tekið Hafsteini og verkum hans fádæma vel og til að þakka stuðninginn hefur verið ákveðið að Austfirðingar fái að njóta bókarinnar fyrstir, en hún er gefin út af Forlaginu. Útgáfuhófið verður því haldið í Neskaupstað sunnudaginn 14. október þar sem opnað verður fyrir sölu bókarinnar viku áður en hún fer í almenna dreifingu. Hófið hefst klukkan 15:00 og allir eru velkomnir.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.